Tips til að einfalda sumarfríið með börnunum

Jun 27, 2022

 

Nú erum við fjölskyldan í þriðja sinn í sumarfríi allt sumarið. Þar áður var ég að mikið ein með börnin yfir sumartímann, og rúmlega það, því maðurinn minn vann í ferðaþjónustinni og mest var að gera frá maí til september.

Ég þekki það því að vera lengi með börnin í sumarfríi og ég þekki það líka að vera ein með börnin í sumarfríi. Mig langar að deila með ykkur hvað ég geri til að láta sumarfríið ganga vel hjá okkur.

 

 

Það hentar okkur best að halda ákveðinni rútínu þó við séum í fríi. Rútínan er þokkalega sveigjanleg en samt þannig að við höldum ákveðnum rythma yfir daginn og vikuna. Við höfum máltíðir í frekar föstum skorðum en þó ekki þannig að það þurfi að halda sér uppá mínútu.

Eftir hádegismatinn fara börnin alltaf í hádegishvíld. Það er alger leikjabreytir (game changer)! Þá fara börnin inn í herbergin sín og dunda sér í klukkutíma á meðan þau hlusta á sögur. Það er tími sem við foreldrarnir getum sjálf hvílt okkur. Það mæta allir ferskari til leiks eftir góða hádegishvíld.

Okkur foreldrunum finnst líka gott að hafa okkar frí á kvöldin svo við kjósum að börnin haldi sínum háttatíma. Það þýðir vissulega að við erum ekki að sofa frameftir morgni en það hentar okkur betur að taka daginn snemma heldur en að vera með börnin bröltandi frameftir kvöldi.

Við höldum líka ákveðnum viku rythma með því að halda í föstudagspizzuna. Þannig finnum við betur fyrir helgunum. Sjálfri finnst mér það þægilegt því annars renna dagarnir algerlega saman.

 

 

Hér þurfa börnin að vera dugleg að finna sér sjálf eitthvað að gera og leika sér sjálfstætt. Við erum ekki með dagskrá á hverjum degi til að halda uppi fjörinu. Við fórum í ferðalag saman í byrjun sumars og fleiri ferðalög eru á dagskrá síðar í sumar. En svo er það bara okkar hversdagsleiki sem rúllar hér viku eftir viku. Við förum vissulega stundum í skógarferðir, rólóferðir, sund og fleira slíkt en það er ekkert meira en við gerum á öðrum tímum ársins. 

 

 

Almennt eru börnin dugleg að leika sér sjálf. Það heyrist jú alveg inn á milli að hér sé ekkert að gera. Þá fá börnin áminningu um að það er ekki hættulegt að láta sér leiðast og að það sé ekki hlutverk foreldra að skemmta börnunum sínum. Þau þurfi að gera það sjálf.

En þó að börnin þurfi að finna sér sjálf afþreyingu flesta daga þá þarf samt sem áður að sinna þörfum barnanna. Við foreldrarnir skiptum því svolítið með okkur “krakkavaktinni”. Þá er annað okkar með ábyrgð á börnunum á meðan hitt nær að vinna eða hvíla sig.

Þegar ég var mikið til ein með börnin í sumarfríium þá var ég með barngóðan ungling sem fór stundum út að leika með annað barnið eða þau bæði. Stundum nýtti ég þann tíma í að koma heimilinu í horf og stundum setti ég lappirnar upp í loft og horfði á Netflix á meðan börnin voru á róló.

 

 

Hér er þrennt sem ég get boðið til að einfalda þér sumarfríið með börnunum þínum:

Geta barnanna til að leika sér sjálfstætt hefur haft ótrúlega mikið að segja í svona löngum sumarfríum eins og við höfum haft síðustu ár. Það er ekki gerlegt að halda uppi skemmtidagskrá allt sumarið án þess að brenna út. Ef þig vantar aðstoð við að stuðla að meiri sjálfstæðum leik á þínu heimili þá finnurðu öll mín tips í rafbókinni Lykillinn að sjálfstæðum leik barna

Fyrir börn á leikskólaaldri (jafnvel eldri og yngri) fá skynjunarleikir öll mín meðmæli. Þegar börnin mín voru yngri bauð ég þeim reglulega uppá skynjunarleiki því þau gátu leikið sér í upp undir klukkutíma í svoleiðis leikjum. Þá sat ég gjarnan hjá þeim, var með hljóðbók í öðru eyranu og náði að hvíla mig aðeins á meðan þau léku sér. Í rafbókinni Skynjunarleikir barna finnur þú öll mín tips um slíka leiki. 

Fyrir þau sem kaupa báðar rafbækurnar ætla ég að láta Sumarheftið 2022 fylgja frítt með! Það eina sem þú þarft að gera er að leggja inn pöntun fyrir báðar rafbækurnar og ég sendi þér sumarheftið með í kaupbæti.

Ýttu hér til að fara í vefverslun

 

Ég óska þér góðs sumars með fjölskyldunni!
Sigrún Yrja