10 ráð til að einfalda sumarfríið með börnunum

Jul 11, 2025

Sumarfrí með börnum getur verið dýrmætur tími en líka krefjandi. Dagarnir eru langir, rútínur breytast og væntingar geta verið miklar, bæði hjá börnum og fullorðnum. Hér eru 10 hagnýt ráð sem geta hjálpað til við að einfalda fríið, skapa meira jafnvægi og styðja við leikgleði og vellíðan fjölskyldunnar. 

Þessi tíu ráð taka mið af sumarfríi sem er varið heima. Hvort sem allt fríið er heima eða hluti þess þá eru þessi ráð gagnleg til að hindra að foreldrar komi útkeyrðir úr sumar"fríinu"


1. Hafið sveigjanlega rútínu

Sumarfrí þarf ekki að þýða algjört rútínuleysi. Margir upplifa að það hjálpi börnum (og foreldrum) að halda í einfaldan dagstakt – t.d. reglulegan matartíma, hvíld yfir daginn og svipaðan háttatíma. Slíkur rammi getur veitt öryggi og ró, þó hann sé ekki stífur.


2. Hádegishvíld – fyrir alla

Þó eldri börn þurfi ekki beint lúr, getur það verið mjög gagnlegt að hafa rólega stund eftir hádegi þar sem allir draga aðeins djúpt andann. Börn geta hlustað á hljóðbók, dunda sér ein í ró eða legið í rólegheitum með bók eða bangsa. Foreldrar fá þá líka dýrmætan tíma til að hvíla sig.


3. Viðhaldið viku-taktinum

Það getur verið hjálplegt að halda í vikulegar venjur – t.d. að hafa föstudagspizzu, laugardagsmorgunverð eða sunnudagsbíltúra. Slíkar venjur hjálpa fjölskyldunni að finna fyrir helgum og skapar ramma. 


4. Ekki ofhlaða dagskránni

Það er freistandi að fylla sumarið af skemmtilegum viðburðum, en það getur líka orðið þreytandi. Það er í góðu lagi að eiga rólega daga án sérstaks „fjörs“. Hversdagsleikurinn getur verið fullkomlega nægur þegar börnin fá svigrúm til að leika sér og dunda. Það þarf ekki stöðugar sirkusferðir og flugeldasýningar.


5. Gefðu rými fyrir sjálfstæðan leik

Sjálfstæður leikur er mikilvægur hluti af uppvexti barna og skapar rými fyrir foreldra til að hvíla sig eða sinna öðrum verkefnum. Það er eðlilegt að börnum leiðist stundum – og það er í raun ekki neikvætt. Leiði getur verið hvatning til sköpunar og sjálfstæðis. Foreldrar eiga ekki að þurfa að vera skemmtanastjórar barnanna sinna.


6. Skiptið ykkur á „vaktinni“

Ef fleiri en einn fullorðinn er til staðar, getur verið gagnlegt að skipta stundum dögunum niður þannig að annað foreldrið hafi tímabil þar sem það er „á vakt“ með börnunum á meðan hitt hvílist eða sinnir öðru. Þetta dregur úr þreytu og skapar betra jafnvægi í samskiptum. Þannig getur annað foreldrið verið að krakkavaktinni um morguninn og hitt foreldrið seinnipartinn.


7. Leitið aðstoðar ef þörf er á

Það getur verið mikils virði að fá ungling úr hverfinu til að fara með börnin á róló, tengdamömmu í sundferð eða vin í göngutúr. Það þarf ekki að vera flókið eða kostnaðarsamt – stundum getur smá hjálp breytt miklu.


8. Haldið í kvöldfriðinn

Fyrir marga foreldra skiptir miklu máli að eiga rólega kvöldstund þegar börnin eru sofnuð. Því getur verið gott að halda háttatíma frekar stöðugum, jafnvel þótt kvöldin séu björt og löng. Slíkt stuðlar að betri svefni – og betra geðslag daginn eftir.


9. Gerið pláss fyrir einfaldar útiverur

Það þarf ekki að fara langt eða gera stórt úr því til að skapa minningar. Göngutúr í skógarlundi, nestispása á róló eða ferð í nýja sundlaug getur verið skemmtilegt ævintýri. Mikilvægast er að njóta samverunnar og leyfa börnunum að upplifa frelsi og hreyfingu.


10. Minnum okkur á að þetta er ekki keppni

Það er auðvelt að bera sig saman við aðrar fjölskyldur og hugsa að maður þurfi að gera meira, sjá meira, skemmta meira. En sumarfríið snýst ekki um að vinna til verðlauna – heldur um að tengjast, hvílast og búa til góðar minningar á eigin forsendum.


Að lokum...

Hvert sumarfrí er einstakt og engin ein uppskrift hentar öllum. En með einfaldleika, ramma og jákvæðni í farteskinu má oft gera mikið úr litlu og þannig skapa dýrmætan og eftirminnilegan tíma með börnunum.

Ef þú vilt dýpka skilning þinn á sjálfstæðum leik barna og fá hagnýt verkfæri til að styðja við leikgleðina heima, þá mæli ég með netnámskeiðinu Lykill að sjálfstæðum leik barna. Þar færðu bæði innblástur og fræðslu til að styrkja leikumhverfið og skapa meira rými fyrir leik sem börnin leiða sjálf – sem nýtist ekki síst á löngum sumardögum.

Á heimaprent.is finnur þú líka fjölbreytta prentvæna afþreyingu fyrir börn Fullkomið þegar leita þarf að einhverju nýju og skemmtilegu til að brjóta upp daginn hvort sem það er heima, í bústað eða á ferðalagi.

👉 Lykill að sjálfstæðum leik barna – skráning hér
👉 Afþreying fyrir börn – skoðaðu úrvalið hjá heimaPRENT