Sóttkvíar tips

Jan 19, 2022

 

Við höfum enn ekki þurft að sæta sóttkví eða einangrun vegna C (sjö-níu-þrettán) en þegar drengurinn minn var tæplega 2 ára var ég með hann í varnarsóttkví í 4 vikur.

Ég hef líka reynslu af því að vera með barn í  strangri sóttkví þar sem stelpan mín var útsett fyrir mislingasmiti þegar hún var 15 mánaða. Þá mátti hún ekki fara út úr íbúðinni okkar í 2.5 viku. Ég þurfti ekki að vera í sóttkví svo ég mátti fara út af heimilinu þegar pabbinn kom heim seinnipartinn og tók við vaktinni. Ég veit að það er lúxus sem fæstir búa við þegar þeir lenda í sóttkví með börnin sín um þessar mundir.

Nýlega spurði ég fylgjendur mína á Instagram sem höfðu reynslu af sóttkví með börn hvað hefði reynst þeim erfiðast. Svörin sýndu að fólki fannst erfiðast að halda rútínu, takmarka skjátíma, mismunandi þarfir systkinahópsins og skortur á útiveru.

 

 

Það mikilvægasta sem ég myndi gera ef við fjölskyldan myndum lenda í sóttkví er að halda rútínu. Til að halda rútínu hefur reynst okkur einna best að passa upp á matmálstíma, háttatíma og fótaferðatíma. Við þurfum reyndar ekki að passa upp á fótaferðatíma á okkar heimili þar sem börnin eru miklir morgunhanar. En það er gott að ákveða einhvern fótaferðatíma sem hentar fjölskyldunni og halda sig við hann.

Við höfum einhvern léttan hádegismat, stundum snemma og stundum seint. Fer eftir stemmingunni á heimilinu. Eftir hádegismat er alltaf hvíld á okkar heimili þegar við erum heima. Það hefur bjargað minni geðheilsu í lengri fríum! Þá eru börnin almennt inni hjá sér, hlusta á sögu og dunda sér. Við höfum gert þetta í um þrjú ár núna og það er game changer!

Mér finnst lítið mál að vera svolítið sveigjanleg með hádegisverð í mikilli heimaveru en ég er oftast með kvöldmat á réttum tíma. Í lok dags er ég oft bara orðin þreytt og þá er fínt að fá kvöldverð og fara að ljúka deginum. Yngra barnið fer í rúmið fljótlega eftir kvöldmat en eldra barnið má dunda sér eitthvað áfram en það eru rólegheit á heimilinu eftir kvöldmat. Það er lykilatriði þegar maður vill viðhalda rútínu að passa vel upp á háttatímann.

 

 

Þegar það er aukin heimavera hjá okkur þá leyfum við aukinn skjátíma. Að mínu mati er ekkert að því en ég mæli samt með að vera meðvitaður um hversu mikill skjátíminn er og hver áhrif hans eru.

Það er erfitt fyrir aðra að segja til um hvernig fyrirkomulag um skjátíma er best. Hver og einn metur það út frá sinni fjölskyldu og sínum börnum. Börn eru misviðkvæm fyrir skjánotkun, aðstæður fjölskyldna eru ólíkar og fleira sem getur haft áhrif.Ég mæli með að ákveða hvernig best sé að haga skjátímanum (hvenær má horfa/spila og hversu lengi) og halda sig við það.

Á okkar heimili byrjar dagurinn eiginlega aldrei á sjónvarpi. Það er kannski undantekning á nýársdag þegar foreldrarnir eru extra þreyttir ;) En við finnum alveg mun á börnunum þegar þau byrja daginn á sjónvarpi. Þá eiga þau erfiðara með að detta í leik og flæði síðar um daginn. Þannig að okkar sjónvarpstími er yfirleitt seinnipartinn, oftast eftir kl. 16. 

Ég veit það getur verið erfitt fyrir börn að hætta að horfa/spila og ég veit að það er oft freistandi fyrir foreldra að leyfa sjónvarpinu að rúlla áfram til að fá aðeins meiri frið. Trúðu mér, ég skil! Það getur verið gott ráð að vera búin að ákveða hvað er gert eftir skjátímann. Til dæmis baðferð, útiveru, kvöldverð eða eitthvað slíkt.

 

 

Það er gott að muna að það þarf ekki að hafa mikla dagskrá eða endalausa afþreyingu fyrir börn. Börnum má leiðast og foreldrar brenna bara út ef þeir ætla sér að vera stöðugt í hlutverki skemmtanastjóra.

En það getur verið ótrúlega sniðug hugmynd að setja upp einfalt leikboð fyrir börnin sem getur hjálpað þeim af stað í sjálfstæðan leik. Hér er póstur um leikboð 

 

 

Ef það er einhver möguleiki að komast út þrátt fyrir að vera í sóttkví mæli ég með að gera það lágmark einu sinni á dag. Helst oftar! Það þarf ekki endilega að vera lengi en að fá ferskt loft í lungun getur gert kraftaverk fyrir alla! Ég geri það hiklaust að moka öllum út ef það er farið að vera of mikið kaos á heimilinu.

Ef það er ekki hægt að fara út að leika er spurning hvort það sé hægt að búa sig vel og fara út á svalir í svolitla stund. Það má taka krítar með út á svalir, sápukúlur, sulluleiki og allskonar sniðugt.

Ef það er enginn möguleiki á að komast út mæli ég með daglegri hreyfistund inni. Þá má gera þrautabraut úr stólum, púðum og fleiru sniðugu, það má nota málningarlímband til að búa til parís á gólfinu og allskonar fleiri sniðuga leiki. 

 

 

Daglegar bað eða sturtuferðir eru frábærar þegar það er mikil heimavera. Vatnið er svo heilandi og slakar kroppa, bæði litla og stóra. Það má líka leika heilmikið í baði.

Takið endilega leikföng með í baðið sem eru ekki hefðbundin baðleikföng. Það er til dæmis mjög skemmtilegt að taka duplo kubba í bað. Það má setja nokkra dropa af matarlit til að fara í litað bað (nokkrir dropar skilja ekki eftir lit á húð barns eða á baðkarinu), gera froðu til að leika með í baðinu eða sturtunni.

Það má líka mála í baðinu eða sturtunni! Ef maður á þekjuliti sem er auðvelt að þrífa og bætir nokkrum dropum af sápu út í málninguna ætti málningin bara að skolast af með sturtuhausnum. 

 

 

 

Þetta eru atriði sem ég myndi hafa í huga ef ég þyrfti að sæta sóttkví með börnin mín. Ef þú ert í þeirri stöðu að vera mikið heimavið með börnin um þessar mundir mæli ég með að skoða fleiri bloggpósta á þessari síðu. Þú getur fundið fjölmargar hugmyndir að skemmtilegri afþreyingu, ráð um sjálfstæðan leik og fleria ganglegt. 

Ég minni líka á rafbókina Lykillinn að sjálfstæðum leik barna. Ef þig vantar hugmyndir að skynjunarleikjum þá er nóg af þeim í rafbókinni Skynjunarleikir barna