Leikboð

Sep 01, 2021

 Fyrir um tveimur árum síðan skrifaði ég færslu um leikboð. Þá skrifaði ég eftirfarandi málsgrein:

Mig langar að kynna fyrir ykkur hugtakið leikboð. Þetta orð er ekki til í íslenskri orðabók og ég hef ekki heyrt neinn nota þetta orð eða hugtak á Íslandi áður en ég fór að nota það. Leikboð er mín þýðing á enska hugtakinu Invitation to play. Þetta orð - leikboð - finnst mér fanga hugtakið að bjóða í leik á einfaldan og fallegan hátt. Hvað haldið þið, er þetta ekki orð sem ætti að eiga sess í íslenskri tungu?

Mér finnst svo skemmtilegt að lesa þessa málsgrein því núna eru svo margir sem nota þetta hugtak. Núna eru svo margir sem setja upp sérstök leikboð fyrir börnin sín í þeim tilgangi að efla leik barnanna sinna. Orðið leikboð virðist svo sannarlega komið til að vera!

Leikboð snýst um að bjóða börnum í leik með því að gera leiksvæði þeirra aðlaðandi og spennandi. Það er hægt að gera með því að stilla upp leikföngum á nýjan hátt eða á nýjum stað. Það eitt getur kveikt áhuga hjá börnum og þau sjá nýja möguleika til leika með leikföngin. Það getur líka virkað vel að hafa óhefðbundinn efnivið með, eins og til dæmis kassa undan morgunkorni, plastdollur, skálar eða annað tilfallandi úr eldhúsinu.

Það að setja leikföng upp á nýjan stað getur verið nóg til að börn fái innblástur og detta í góðan leik. Stuttu eftir að við fengum stóran og góðan gólfbakka sem við notum mikið í leik, setti ég alla duplo kubbana okkar á bakkann. Það var svosem ekki mikil hugsun á bak við þá ákvörðun. Strákurinn minn vildi leika með kubbana og ég vildi reyna að hemja kubbaflóðið aðeins. Þarna voru kubbarnir komnir í nýtt umhverfi og strákurinn datt í djúpan leik þar sem hann byggði og bætti í langan tíma. Það var mjög skemmtilegt að fylgjast með þessum kubbaleik því hann hafði lítið leikið sér með kubbana dagana og vikurnar á undan. Það var ekki aðeins góður leikur þennan eina dag með kubbana í bakkanum heldur spannaði þetta nokkra daga þar sem hann fór aftur og aftur í bakkann og hélt áfram að byggja og betrumbæta það sem hann var að vinna að. Leikboð getur nefnilega alveg dugað í einhverja daga.

Það þarf ekki að vera flókið, taka langan tíma eða eiga sérstök leikföng til að setja upp spennandi leikboð. Þetta snýst fyrst og fremst um að setja upp eitthvað sem vekur áhuga barnsins á afmörkuðu svæði – og það þarf alls ekki stórt svæði. Leikboð snýst ekki um að foreldri leiki endilega með barninu. Að setja upp leikboð getur einmitt verið gott tækifæri til að stuðla að sjálfstæðum leik!

En nú hugsarðu kannski – er það okkar hlutverk að skemmta börnunum okkar? Mega þau ekki láta sér leiðast? Er ekki best fyrir þau að finna sér sjálf eitthvað að gera? 

Því er ég hjartanlega sammála. Börn hafa gott af því að láta sér leiðast endrum og eins – og líka við fullorðna fólkið! Þegar börnum leiðist hvetur það þau til að nota ímyndunaraflið og eins örvar það sköpunargáfu þeirra. 

Ég er hvorki skemmtikraftur barnanna minna né held uppi dagskrá fyrir þau. En mér finnst gaman að búa þeim umhverfi þar sem þau geta dottið í djúpan leik í langan tíma. Leikboð er eitthvað sem ég geri stundum fyrir börnin mín. Stundum hef ég gert það nokkrum sinnum í sömu vikunni en svo líður líka stundum töluverður tími þar sem ég set ekkert upp fyrir þau. Stundum gef ég mér tíma í að setja upp flott og mikið leikboð og stundum set ég upp eitthvað ofur einfalt sem tekur tvær mínútur.

Mér finnst mikilvægt að börn stjórni sínum eigin leik og þó ég setji upp leikboð fyrir börnin mín þá skipti ég mér aldrei af því hvernig þau leika með það sem ég set upp. Oft hef ég enga ákveðna hugmynd um hvernig sé hægt að leika sér með það sem ég set upp. Ég leyfi börnunum að nota ímyndunaraflið og sköpunargleðina og búa til sinn eigin leik. Stundum er ég með eitthvað þema og sé fyrir mér hvernig sé hægt að leika með það sem ég set upp. Ég passa mig þó á því að segja þeim ekki hvað eigi að gera með leikboðið eða hvernig þau geti leikið. Það er alfarið ákvörðun barnanna hvort þau noti leikboðið og þá hvernig.

Það er engin ein leið til að gera leikboð fyrir börn. Börn eru öll ólík, hafa mismunandi áhugasvið, getu og færni. Leikboð er hægt að setja upp fyrir börn frá því að þau eru nokkurra mánaða og þar til þau hætta að leika sér (sem er vonandi aldrei). Það er bara spurning að finna hvað vekur áhuga barnsins og hvað það ræður við. Stundum slá leikboðin sem ég set upp algerlega í gegn en svo kemur líka fyrir að þau séu lítið vinsæl. Þá prófa ég eitthvað annað næst.

Til að draga saman – leikboð er þegar barni er boðið í leik. Það er að segja, búið er að setja upp einhverskonar afþreyingu eða verkefni fyrir barnið. Það getur verið jafn einfalt og að setja upp tóman kassa hjá kubbakassanum eða hafa fallegt útpælt þema og allt þar á milli. Að mínu mati ættu börn að ráða hvernig þau nýta leikboðið og fá að stýra sínum leik sjálf.

Ég hvet þig til að prófa að setja upp einfalt leikboð fyrir barnið þitt og sjá hvaða áhrif það hefur á leikinn!