Sjónvarp sjónvarp sjónvarp

Feb 10, 2022

 

Of mikið sjónvarpsgláp og tölvunotkun
hefur slæm áhrif á þroska barna

 

Hvernig líður þér að lesa þessa setningu? Samviskubit? Áhyggjur? Hugsanir um það hvort búið sé að klúðra uppvexti barnsins af því það horfir á sjónvarp?

Bíðum aðeins! Við skulum kryfja þetta saman. Það er alveg rétt að OF mikið sjónvarp hefur neikvæð áhrif á eiginlega allt sem viðkemur þroska barna. Heilaþroska, athygli, einbeitingu, hegðun, svefn, hreyfifærni og ýmislegt fleira.

Þetta er eitthvað sem fjölmargar rannsóknir sýna fram á og eru upplýsingar sem við vitum flestöll, ekki satt? Þess vegna eru ótal foreldrar sem upplifa samviskubit þegar börnin þeirra horfa á sjónvarp. Það er óraunhæft að ala upp börn í nútíma samfélagi án þess að þau horfi á sjónvarp eða noti tölvur og síma á einhverjum tímapunkti.

 

Watching TV might be the worst sedentary behavior for kids: Study - Parents  - The Jakarta Post

 

Það er mælt með því að halda börnum frá sjónvarpi, tölvum og síma fyrstu 18-24 mánuðina. Því er ég sammála og mig langar að segja ykkur hvers vegna. Sjónvarp gagnast ekki börnum undir tveggja ára. Það heldur pottþétt athygli þeirra en rannsóknir sýna að þau læra ekkert af sjónvarpi eða tölvum þegar þau eru svona ung. Heili barna þroskast mest fyrstu árin og því mikilvægt að huga vel að umhverfi þeirra og áreiti í umhverfinu. Börn læra með því að eiga í samskiptum við fólk og að fylgjast með umhverfi sínu. Börn undir tveggja ára eru að læra að tala, lesa svipbrigði og taka eftir tónfalli. Það gerist þegar þau eiga í virkum samskiptum við fólk en ekki í einstefnu sjónvarpsins.

Börn þurfa að læra að að einbeita sér og að halda athygli. Það er færni sem þarf að byggja upp og efla. Áreiti eins og frá sjónvarpi og öðrum skjáum getur haft áhrif á þann þroska. Sjónvarpsefni og tölvuleikir er hannað til að vera skemmtilegt og grípandi. Fyrir börn sem eru mikið fyrir framan skjá getur verið erfitt aðhalda einbeitingu við eitthvað annað eins og að skoða bækur eða leika sér sjálf með leikföng. 

Ung börn eru viðkvæmari en fullorðnir fyrir hvers kyns áreiti. Mikil hljóð, margir litir og hröð atburðarrás sem oft á sér stað á sjónvarpsskjánum getur hæglega verið of mikið áreiti fyrir börn og þau geta átt erfitt með að vinna úr öllum þessum upplýsingum. Þegar börn byrja að horfa á sjónvarp er því góð hugmynd að velja efni sem er lágstemmt og lítið um að vera.

 

Study links screen time to autism, but problems abound | Spectrum | Autism  Research News

 

En hvað gerir maður þá fyrir smábörn þegar maður þarf smá hvíld frá því að vera foreldri í staðin fyrir að kveikja á sjónvarpinu? Mitt svar er skynjunarleikir! Ung börn eru stöðugt að uppgötva, rannsaka og læra og þau gera það í gegnum skynfærin. Ung börn geta unað sér lengi í ýmsum skynjunarleikjum og á meðan getur foreldrið setið hjá og náð smá hvíld.

Hér geturðu lesið bloggpóst um skynjunarleiki. Ég hef líka skrifað rafbók um skynjunarleiki þar sem ég fer vel yfir hvað skynjunarleikir eru, gagnsemi þeirra og gef góð ráð um uppsetningu og frágang skynjunarleikja. Í rafbókinni eru líka fullt fullt af hugmyndum að sniðugum skynjunarleikjum fyrir börn. Ég ætla að lauma hér afsláttarkóða sem þú getur notað ef þú ætlar að kaupa rafbókina. Kóðinn  SKYNJUN gefur þér 20% afslátt þannig að þú færð bókina á 1000 krónur ($8) í stað 1250 krónur ($10)

Ýttu hér til að kaupa bókina

 

 


 

Jæja þá er ég búin að fjalla um það af hverju við ættum að bíða með að bjóða börnum upp á sjónvarp fyrstu 18-24 mánuðina. En hvað svo eftir það?

Eins og ég nefndi hér að ofan þá mæli ég með að velja vel það efni sem barnið horfir á. Veljið efni sem er talsett á móðurmáli barnsins. Veljið efni sem er rólegt (ekki of mikil læti eða of hratt). Forðist efni sem inniheldur ofbeldi.

Mér finnst vera lykilatriði að vera meðvitaður um hvenær og hversu lengi maður býður uppá sjónvarp eða aðra skjái. Það er líka mikilvægt að fylgjast með áhrifum sem það hefur á barnið. Börn hafa mismikið þol fyrir því áreiti sem fylgir skjánotkun. Sum börn þurfa mjög skýran ramma í kringum skjánotkun, önnur börn ráða vel við sveigjanleika. Það er því ómögulegt að gefa út leiðbeiningar sem henta öllum. Það er þitt að meta hvað hentar þínu barni og þinni fjölskyldu.

 

 

Það er líka mikilvægt að muna að skjánotkun er breytileg eftir tímabilum. Börn þroskast og þarfir þeirra breytast. Aðstæður fjölskyldna breytast. Sjónvarpsnotkun á okkar heimili hefur verið mjög breytileg í gegnum árin en síðustu 3-4 ár höfum við verið meðvituð um að hafa skjánotkun í lágmarki. En hvað þýðir að hafa skjánotkun í lágmarki? Fyrir mér þýðir það að passa að skjánotkun komi ekki í veg fyrir leik, samskipti, samveru, útiveru og hreyfingu.

Þegar yngra barnið var nýfætt, með bakflæði og fæðuóþol, vansvefta foreldrar og orkumikill 2.5 árs þá var sjónvarpið notað meira en það var gert ári síðar þegar við vorum komin í góða rútínu, komin stjórn á bakflæði og fæðuóþol og foreldrarnir sváfu meira.  Sjónvarpið er notað minna á sumrin og meira á veturna á okkar heimili. Sjónvarpið er notað meira í fríum og veikindum en þegar hefðbundin rútína rúllar.

Það virkar vel fyrir mín börn að vita hvenær þau ganga að sjónvarpi vísu. Þá er auðveldara fyrir þau að taka því þegar við segjum nei ef þau biðja um að horfa á sjónvarp. Börnin vita að þau ganga að sjónvarpinu vísu um helgar, seinnipartinn.

Við byrjum ekki daginn á sjónvarpi því það hefur sýnt sig að það fer ekki vel í mannskapinn. Það hvernig við byrjum daginn setur tóninn fyrir restina af deginum. Mín börn fúnkera betur ef þau byrja daginn í leik. Ef þau byrja daginn á sjónvarpsglápi verður meira eirðarleysi í þeim yfir daginn, eiga erfiðara með að finna sér verkefni og almenn ókyrrð. Stundum þarf ég að minna mig á það þegar ég er að hella cheeriosi í skál kl 6 á sunnudagsmorgnum…

 

 


 

Til að draga saman!

Bíða með skjánotkun þar til börn eru orðin 18-24 mánaða. Mæli með skynjunarleikjum til að hafa ofan af fyrir þeim.

Passa að velja rólegt efni á móðurmáli barnsins þegar barnið fer að horfa á sjónvarp.

Passa að skjánotkun komi ekki niður á samskiptum, samveru, leik, útiveru og hreyfingu.

Veita því athygli hvaða áhrif skjánotkun hefur á líðan barnsins og miða skjánotkun við það. Slæm líðan og hegðun vegna skjánotkunar þýðir að það þarf að draga úr skjánotkun.

 

Að lokum smá dæmi:

Þú átt tvö börn 3 og 5 ára. Þau vakna kl. 6.30 á þriðjudegi og byrja daginn á morgunverði og detta svo í leik. Þau fá aðstoð við að fara í föt og að græja sig í daginn og eru mætt í leikskólann kl. 8. Börnin eru sótt kl. 16 og þið labbið heim.  Þrátt fyrir að heimilið sé í fimm mínútna göngufjarlægð frá leikskólanum tekur heimferðin þrjú korter. Það var bara svo margt að skoða og upplifa á leiðinni og þið ekkert að flýta ykkur.

Börnin leika sér og þú ert með þeim til kl. 17:30 þegar þú ætlar að fara að elda. Þú kveikir á sjónvarpinu og þau horfa í 30 mínútur á meðan þú eldar kvöldverð. Þið borðið saman kl. 18 og yfir kvöldmatnum er mikið spjallað um daginn, hlegið og grínast. Eftir kvöldmat eru börnin háttuð, þið lesið kvöldsögu og börnin fara í rúmið kl. 19.

Ég myndi ekki hafa áhyggjur af skjánotkun í þessu dæmi!