Skynjunarleikir

skynjunarleikir Aug 07, 2021

Ung börn nota skilningarvitin til að kanna og skilja veröldina í kringum sig. Það er þeirra eðli að nota ólík skynfæri til að rannsaka umhverfi sitt. Sjáðu bara fyrir þér barn á fyrsta aldursári sem heldur á kubb. Barnið veltir kubbnum milli handanna, skoðar hann, setur hann í munninn til að finna áferðina og lögun hans, barnið þefar jafnvel af kubbnum, það lemur honum í gólfið og hlustar eftir hljóðinu sem kemur.

Við treystum stöðugt á skilningarvitin til að taka ákvarðanir í gegnum lífið. Það er okkur fullorðna fólkinu svo eðlislægt að við spáum ekki endilega í því eitthvað sérstaklega. Þegar við athugum hitastigið á vatninu áður en við stígum inn í sturtuna, eða þegar við lyktum uppúr fetaostskrukkunni sem enginn veit hversu lengi hefur staðið inni í ísskáp áður en við leggjum í að nota innihaldið, erum við að nota skilningarvitin.  

 

HVAÐ ER SKYNJUNARLEIKUR?

Skynjunarleikur er hvers konar afþreying sem örvar skilningarvitin – sjón, heyrn, snerting, lykt, bragð og jafnvægi.

Það er því ekki þannig að skynjunarleikur sé eitthvað sem foreldrar þurfa endilega að hafa  sérstaklega mikið fyrir. Alls ekki. Baðferðir eru til að mynda frábær skynjunarleikur. Eins þegar barn lemur kubb í gólfið finnur það höggið þegar kubburinn snertir gólfið og skynjar hljóðið. Það er kannski ekki eitthvað sem foreldrarnir njóta sérstaklega ;) 

Tækifæri til að efla skilningarvitin eru allt í kringum okkur. Einfaldasta og náttúrulegasta leiðin til að bjóða uppá skynjunarleiki er eflaust að fara út í náttúruna. Náttúran býður uppá svo margt til að sjá og skoða, allskonar lyktir eru loftinu, svo margt spennandi til að snerta á og hlusta eftir.

 

Sjáið bara fyrir ykkur þennan dreng í fjörunni. Hann tekur upp stein, finnur áferðina, lögun hans og þyngd. Hann hendir honum í vatnið og finnur hvernig skynjunin breytist þegar steinninn yfirgefur hönd hennar. Hann sér steininn lenda í vatninu, heyrir þegar hann lendir og vatnið gusast, hann sér vatnið gusast út um allt og steininn hverfa. Mögulega finnur hann fyrir smá vatni sem skvettist á hann.

Það er engin smá skynjunarleikur og lærdómur í gangi á svona augnabliki!

 

GAGNSEMI SKYNJUNARLEIKJA

Það er börnum eðlislægt að vilja upplifa heiminn í gegnum skynjunarleiki. Hlutverk foreldra og annarra umönnunaraðila er að hvetja og styðja við þá löngun. Skynjunarleikir hvetja börn til þess að rannsaka umhverfi sitt, kanna hvernig efniviðurinn sem þeim er boðinn uppá virkar, hvað sé hægt að gera með hann og ekki síst hvernig þeim líkar við hann – allt á sínum forsendum.

Skynjunarleikur getur til dæmis verið gagnlegur fyrir börn sem eru að byrja að borða. Barnið fær að snerta á matnum og finna hvernig áferðin er. Það kremur kannski matinn í lófanum og sér hvernig lögunin breytist. Barnið lyktar af matnum og smakkar á honum. Fái barnið að stjórna ferðinni og kanna þennan nýja efnivið á sínum forsendum hjálpar það barninu að öðlast traust og skilning á þessari nýju fæðu. Heilinn fær skilaboð um að það sé öruggt að borða þennan mat.

Skynjunarleikir styrkja taugatengingar í heila ungbarna, hvetja til gagnrýnnar hugsunar auk þess sem þeir efla hreyfiþroska og málþroska svo fátt eitt sé nefnt.

Fyrir frekari upplýsingar um skynjunarleiki, svosem hvað það nú eiginlega er, gagnsemi þeirra, góð ráð til að setja upp og ganga frá skynjunarleikjum, bendi ég á rafbókina um skynjunarleiki. Þar fer ég yfir allt sem þú þarft að vita til að setja upp skynjunarleiki fyrir börnin þín á einfaldan og öruggan hátt. Ýttu hér til að kaupa rafbókina