Skynjunarleikir
Aug 28, 2025
Ung börn nota skilningarvitin til að kanna og skilja veröldina í kringum sig. Það er í þeirra eðli að nota sjón, heyrn, snertingu, lykt, bragð og hreyfingu til að rannsaka umhverfi sitt.
Sjáðu bara fyrir þér barn á fyrsta aldursári sem heldur á kubb: það veltir honum milli handanna, setur hann í munninn, þefar af honum, lemur honum í gólfið og hlustar á hljóðið sem myndast. Í þessum litlu tilraunum er barnið að læra um form, áferð, þyngd og orsakir og afleiðingar – allt með líkamanum sem sitt helsta rannsóknartæki.
Við fullorðna fólkið notum líka stöðugt skilningarvitin en gerum okkur oft ekki grein fyrir því. Þegar við prófum vatnið áður en við stígum í sturtu eða lyktum af fetaostskrukkunni áður en við borðum úr henni, erum við að styðjast við sama grundvallarkerfi og börn gera í leik sínum.
HVAÐ ER SKYNJUNARLEIKUR?
Skynjunarleikur er hvers konar leikur eða afþreying sem örvar skilningarvitin – sjón, heyrn, snertingu, lykt, bragð og jafnvægisskyn.
Það þarf ekki að vera flókið né tímafrekt. Baðferðir, kubbar eða útivera geta verið ótrúlega rík upplifun fyrir börn. Náttúran er í raun stærsta og besta leiksvæðið: lyktin af grasi, áferðin á steinum, hljóðin í fuglunum og vindinum – allt kallar það fram skynjunarupplifun sem börn læra af.
Ímyndaðu þér barn í fjöru sem tekur upp stein: það finnur þyngdina og áferðina, barnið kastar honum og fylgist með því hvernig steinninn hverfur í sjóinn. Það sér vatnið gusast, heyrir skvampið og finnur kannski kaldan dropa lenda á húðinni. Þetta er ótrúlega einfaldur leikur en líka ómetanlegt nám.
AF HVERJU ERU SKYNJUNARLEIKIR MIKILVÆGIR?
Börn hafa eðlislæga löngun til að kanna heiminn með skilningarvitunum. Hlutverk foreldra og umönnunaraðila er að styðja við þá forvitni.
Skynjunarleikir:
-
Búa til og styrkja taugatengingar í heilanum - leggja grunn að frekari þroska og námi.
-
Efla hreyfiþroska og málþroska – þegar barnið kreistir, eys vatni, hellir eða skoðar.
-
Stuðla að gagnrýnni hugsun og lausnamiðaðri nálgun – barnið prófar, spáir og sér niðurstöður.
-
Auka sjálfstraust og öryggi – sérstaklega gagnlegt þegar börn eru að kynnast nýjum hlutum, eins og t.d. mat. Þegar barnið fær að snerta, kreista og smakka mat á sínum forsendum lærir það smám saman að treysta nýrri fæðu. Heilinn fær skýr skilaboð um að þetta sé öruggt – sem getur auðveldað matarvenjur til lengri tíma.
NIÐURSTAÐA
Skynjunarleikur er ekki lúxus heldur hluti af eðlilegri þroskaleið barna. Hann þarf hvorki að kosta mikið né krefjast sérstakrar undirbúnings. Skynjunarleikur er allt í kringum okkur - í baðkarinu, í eldhúsinu og úti í náttúrunni. Með því að skapa tækifæri fyrir skynjunarleik ertu að gefa barninu þínu mikilvæga gjöf: möguleika til að kynnast heiminum með líkamanum, í leik og gleði.
VILTU FLEIRI HUGMYNDIR AÐ SKYNJUNARLEIKJUM?
Leikvitund býður upp á áskrift að vikulegum skynjunarleikjum sem auðvelda þér að skapa þroskandi og skemmtilegar stundir með barninu þínu.
Áskriftin opnar aðeins 2–3 sinnum á ári og næsta opnun er núna um mánaðamótin ágúst/september.
Ýttu hér til að lesa meira um áskriftina leikvitund.is/skynjunarleikir