Sjálfstæður leikur
Aug 07, 2021
Sjálfstæður leikur – er það ekki draumur allra
foreldra og umönnunaraðila?
Ég þekki allavega ekkert foreldri sem kann ekki að meta góðan sjálfstæðan leik. Fyrir foreldra er sjálfstæður leikur mikilvægur til að sporna við foreldrakulnun. Það getur ekkert foreldri verið í þeirri stöðu að hafa ofan af fyrir barninu sínu hverja vökustund. Foreldrar hafa nógu mörg verkefni og skyldur að sinna þó að starf skemmtanastjóra bætist ekki við.
Öll viljum við fá stundir útaf fyrir okkur og við getum betur mætt börnunum okkar og þeirra þörfum ef við höfum fengið hvíld eða rými til að sinna okkar verkefnum. Þess vegna er mikilvægt að börn geti leikið sér sjálfstætt. Bara það að geta drukkið kaffibolla í næði á meðan unginn leikur sér á gólfinu, elda kvöldmatinn á meðan börnin leika sér eða ryksuga yfir gólfið án þess að vera með barn á handleggnum, er eitthvað sem allir hljóta að vilja.
Sjálfstæður leikur er gríðarlega mikilvægur að mínu mati. Eins mikilvægt og það er að draga úr álagi á foreldra er það samt ekki það mikilvægasta við sjálfstæðan leik. Það sem snýr að börnunum sjálfum er það mikilvægasta. Það er virkilega jákvætt, mikilvægt og dýrmætt fyrir börnin sjálf að geta leikið sér sjálfstætt.
Það er nefnilega heilmikill þroski og færni sem börn öðlast í gegnum sjálfstæða leikinn. Börn læra að þau hafa val - þau geta valið hvað þau ætla að leika, hvernig og hversu lengi. Þau læra að taka sjálfstæðar ákvarðanir í leiknum og það er færni sem nýtist út lífið. Við sem erum orðin fullorðin vitum að við þurfum endalaust að vera að velja og hafna í lífinu. Ef við veljum A þá höfnum við B. Við þurfum að læra að standa og falla með þeim ákvörðunum sem við tökum. Það þjálfast meðal annars í gegnum sjálfstæða leikinn. Í gegnum leikinn uppgötva börn hvað það er sem þau hafa gaman af og læra þar með að þekkja sig sjálf. Þau munu mæta mótstöðu í leiknum sínum og ef við gefum þeim tækifæri til að finna út úr því sjálf, án þess að hlaupa strax til og bjarga málunum, þá eflir það þrautsegju og sjálfstraust. Börn læra að þau eru fær um svo ótal margt sem gerir þau tilbúin til að mæta krefjandi aðstæðum í framtíðinni.
Ég trúi því að öll börn hafi getu til að leika sér sjálfstætt frá upphafi. Það þarf ekki að bíða með að stuðla að sjálfstæðum leik þar til börn hafa náð ákveðnum aldri. Sjálfstæður leikur er samt mismunandi milli barna og mismunandi eftir aldri og þroska hvers og eins. Með því á ég við að mitt þriggja ára barn leikur sér ekki endilega eins og þitt þriggja ára barn. Það er því mjög mikilvægt að við séum með viðeigandi væntingar þegar kemur að sjálfstæðum leik.
Ekki horfa á það hversu mikið önnur börn geta leikið sér sjálfstætt. Horfðu á þitt barn og finndu út getu þess til að leika sér sjálfstætt. Sem dæmi þá gat annað barnið mitt hæglega leikið sér sjálfstætt í upp undir tvo klukkutíma þegar það var tveggja og hálfs árs. Hitt barnið mitt gat ekki leikið sjálfstætt svo lengi á þeim aldri.
Jæja, gott og blessað. Við getum öll verið sammála um mikilvægi sjálfstæðs leiks. En hvernig fáum við börn til að leika sér sjálf? Hér eru nokkur atriði sem er gagnlegt að hafa í huga ef þú vilt stuðla að sjálfstæðum leik.
- Að vera í góðri rútínu veitir börnum frelsi innan síns ramma. Börn vilja vita hvað er framundan og hvers er að vænta. Það helst í hendur við skjátíma, því þegar börn vita hvenær þau eiga von á skjátíma og hvenær ekki, drögum við úr vangaveltum um hvenær megi nú eiginlega horfa eða fara í tölvuna. Þannig skapast betra rými fyrir leik.
- Svefn og hvíld skiptir miklu máli því leikur útheimtir oft mikla orku. Orkan og athyglin er oft mest á morgnanna og það er tíminn sem er oft best til þess fallinn að leika sjálfstætt.
- Börn hafa mikla þörf fyrir nærveru og athygli svo gæðastundir til að fylla á tengslatankinn eru mikilvægar svo börn geti leikið sér sjálf.
- Það skiptir miklu máli að geta sett börnum mörk. Ef við viljum að börn leiki sér sjálfstætt verðum við að geta sett þeim mörk þegar þörf er á. Þú ert ekki slæmt foreldri ef þú segir “nei mig langar ekki að leika núna. Leikt þú sjálfur á meðan ég brýt saman þvottinn”
- Þegar börn eru ung upplifa þau meira öryggi þegar þau finna fyrir nærveru umönnunaraðila. Því er góð hugmynd að velja leiksvæðinu stað með þetta í huga. Fleira en eitt leiksvæði getur til dæmis verið góð hugmynd fyrir mjög ung börn eða ef fleira en eitt barn er á heimilinu. Leiksvæðið þarf að vera vel skipulagt og snyrtilegt. Börn þurfa að vita hvar þau finna ákveðin leikföng og eiga auðvelt með að nálgast þau. Þess vegna eru opnar hirslur oft góður kostur.
- Einföld leikföng sem gera ekkert nema barnið stjórni því eru til þess fallin að efla ímyndunarafl barna. Opinn efniviður endist börnum lengur þar sem slík leikföng má nota á ótal vegu og eftir því sem börn eldast og þroskast finna þau nýjar leiðir til að nota leikföngin. Minna er meira er setning sem má hafa í huga þegar kemur að leikföngum þar sem of mörg leikföng geta verið yfirþyrmandi og hamlað leik barna.
- Það er gífurlega mikilvægt að trufla börn sem eru einbeitt sem allra allra minnst. Það á við strax frá fæðingu og gildir hvort sem börn eru að leika sér, að fást við önnur verkefni eða bara upptekin í eigin hugsunum.
- Þegar við leyfum leiknum að standa áfram þó börn þurfi að hætta að leika sér gefur það börnum þau skilaboð að þau og leikurinn þeirra skipti máli. Þegar við tölum um leikinn við börn er gott að muna að tala um ferlið en ekki útkomuna. Þannig eflum við börn í að leika sér fyrir sig sjálf en ekki til að fá hrós fyrir afraksturinn.
- Börn ættu að fá að vera rithöfundar, leikstjórar og leikarar í sínum eigin leik. Það er ekki okkar að ákveða hvernig leikurinn ætti að vera. Það er ekki okkar að ákveða hvernig rétt sé að bregðast við þegar útaf ber. Ef börn eiga erfitt með að byrja leikinn sinn má þó aðstoða þau lítillega af stað með því að setja upp einfalt leikboð.
- Að lokum þarf að muna að börnum má leiðast. Það er ekki hættulegt þó börnum leiðist. Það er ekki vandamál, og sérstaklega ekki þitt vandamál þó að börnum leiðist!
Ítarleg yfirferð um hvernig megi stuðla að sjálfstæðum leik má finna í rafbókinni Lykillinn að sjálfstæðum leik barna