Lausamunir í náttúrunni

Sep 14, 2023

 

Í síðustu viku setti ég inn póst um lausamuni. Lausamunir er opinn efniviður sem má nota á allskyns ólíka vegu. Ef þú hefur ekki séð póstinn mæli ég með að ýta hér og kíkja á hann

Lausamunir geta verið bæði manngerðir og náttúrulegir. Hér ætlum við að beina sjónum að náttúrulegum lausamunum en það eru, eins og nafnið ætti að gefa til kynna, lausamunir sem má finna í náttúrunni.

Það besta við lausamuni er að allir geta leikið með lausamuni, óháð aldri, búsetu eða fjárhag fjölskyldunnar. Það þarf ekki að kaupa sérstök leikföng heldur er hægt að finna allskyns gersemar í náttúrunni sem má nota til að leika og skapa, bæði inni og úti.

Kosturinn við náttúrulega lausamuni er að þeir ýta undir útiveru og hreyfingu. Fjölskyldan fer út til að finna skemmtilegan efnivið í náttúrunni og í leiðinni fær fjölskyldan öll notalega hreyfingu í fersku lofti. Útiveran eflir skynþroska barnsins því barnið horfir í kringum sig eftir nýjum fjársjóði, barnið finnur lykt náttúrunnar, barnið heyrir í dýrum og vindinum leika um gróðurinn. Barnið snertir á fjölbreyttum hlutum sem það finnur í náttúrunni. Hlutir sem hafa ólíka áferð, mismunandi liti og öðruvísi lykt. Barnið eflir einnig hreyfiþroska með því að ganga um, klifra, skoppa, tína upp hluti og fleira. Allt saman gerist þetta án mikillar áreynslu eða kostnaðar. Notaleg fjölskyldusamvera sem hefur stórkostlega jákvæð áhrif á þroska og tengsl.

En hvað er svo gert með fjársjóðinn sem barnið finnur? Það er undir barninu sjálfu og ímyndunarafli þess komið. Það má leika með lausamunina úti í náttúrunni eða taka þá heim. Það má nota lausamunina eina og sér eða með öðrum efnivið og leikföngum.

Þannig má nota köngla í gröfuleiknum, það má nota laufblöð í föndrið, það má nota skeljar til að gera mynstur, það má nota blóm til að gera blómasúpu. Möguleikarnir eru óteljandi!

Dæmi um lausamuni sem þú getur fundið í náttúrunni

  • Steinar
  • Skeljar
  • Kuðungar
  • Könglar
  • Blóm
  • Lauf
  • Börkur
  • Greinar
  • Strá
  • Fjaðrir
  • Rekaviður

 

Bestu kveðjur og gleðilegan leik!

Sigrún Yrja