Lausamunir

leikföng leiksvæði Sep 07, 2023
Loose Parts

 

Oft er það þannig að vinsælustu “leikföngin” eru í raun og veru ekki eiginleg leikföng. Það getur verið að barn safni greinum, steinum, könglum og öðru lauslegu. Slíkur efniviður er ekki síður gagnlegur fyrir leik og þroska barna.

 

 

Þegar við höfum samansafn af einhverju lauslegu kallast það lausamunir (e. loose parts). Til að útskýra það betur þá eru lausamunir eitthvað sem börn geta fært á milli staða, borið með sér í lófanum, í vasanum eða í töskum. Eitthvað sem þau geta staflað eða raðað. Eitthvað sem þau geta notað eitt og sér eða með öðrum efnivið. Það eru engar reglur um hvernig á að nota lausamuni heldur er það undir barninu sjálfu og ímyndunarafli þess komið hvernig leikurinn þróast. 

 

 

Hugtakið Lausamunir (e. loose parts) kom fyrst fram árið 1972. Þá setti arkitektinn Simon Nicholson fram kenningu sína um lausamuni. Hann taldi að efniviður sem hægt væri færa til, fikta með og búa til eitthvað nýtt úr, stuðlaði að óteljandi fleiri tækifærum til skapandi þátttöku barna heldur en kyrrstæð efni og umhverfi.

Hans kenning kom að miklu leyti frá því hvernig hann hugsaði leiksvæði barna. Að í stað fastra leiktækja sem ekki væri hægt að færa til eða breyta á neinn hátt þá væru lausir hlutir sem börn gætu fært á milli og notað á allskyns ólíka vegu margfalt betur til þess fallnir að efla sköpunarkraft barna.

 

 

Síðustu ár hefur mikið verið talað um opinn efnivið og hvað slík leikföng hafa jákvæð áhrif á leik og þroska barna. Opinn efnviður hefur ekkert fyrirfram ákveðið hlutverk eða útkomu. Það er engin ein rétt leið til að leika með opinn efnvið heldur býður slíkur efnviður uppá ótal möguleika. Opinn efniviður er því í flestum tilfellum líka lausamunir. Eitthvað sem börn geta borið um, raðað upp, notað eitt og sér eða með öðrum hlutum.

 

 

Lausamunir þurfa ekki endilega að vera mjög litlir. Lausamunir geta verið kubbar í öllum stærðum og gerðum. Það geta verið boltar í mismunandi stærðum og með ólíka áferð og tilgang. Lausamunir geta hvort heldur verið náttúrulegir eða manngerðir. Þú getur keypt sérstök leikföng sem eru frábærir lausamunir eða þú getur farið út í garð og fundið allskyns gersemar þar.

 

Dæmi um lausamuni sem má finna á mörgum heimilum:

 • Kubbar
 • Eggjabakkar
 • Pappakassar
 • Klósettrúlluhólkar
 • Eldhúsrúlluhólkar
 • Flöskur
 • Flöskutappar
 • Tómar dollur
 • Rör
 • Gúmmíteygjur
 • Efnis afgangar
 • Silkiborðar
 • Gardínuhringir
 • Klemmur
 • Dúskar
 • Perlur
 • Boltar
 • Skálar
 • Matreiðsluáhöld (sleifar, ausur, sleikjur ofl)

 

Ekki vera feimin við að bjóða börnum að leika með eitthvað sem er ekki hannað sem leikfang. Þó þarf auðvitað alltaf að hafa í huga að velja eitthvað sem er ekki hættulegt börnum og/eða leyfa þeim að leika undir eftirliti.

 

Bestu kveðjur og gleðilegan leik!

Sigrún Yrja