Um mikilvægi leiks

Sep 08, 2021

 

Leikur er nauðsynlegur fyrir þroska barna. Ég skrifa það aftur af því að það er svo mikilvægt – Leikur er nauðsynlegur fyrir þroska barna! Leikur stuðlar að vitrænni, líkamlegri, félagslegri og tilfinningalegri vellíðan barna.

Leikur eflir sköpunargleði, hugmyndaflug, sjálfstraust og námshæfileika barna. Leikur er svo mikilvægur að réttur barna til leiks er viðurkenndur í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Öll börn eiga rétt á að leika sér!

Leikur er eitt það mikilvægasta sem börn taka sér fyrir hendur en þrátt fyrir það hefur tækifærum barna til að leika sér frjálst minnkað verulega síðustu áratugi.

 

 

En hvað er leikur? Leikur er ekki bara þegar börn leika sér í ímyndunar- eða hlutverkaleikjum. Leikur er ekki bara þegar verið er að byggja úr kubbum. Leikur er allskonar!

 

 “Children’s play is any behavior, activity or process initiated, controlled and structured by children themselves; it takes place whenever and wherever opportunities arise."
(International Play Association)

 

Í leik fá börn frelsi til að læra á lífið, tilveruna, samferðamenn og sig sjálf, á sínum hraða og sínum forsendum. Leikur getur hjálpað börnum að tjá tilfinningar sínar og vinna úr þeim. Til dæmis þegar þau þykjast vera hrædd eða reið, glöð eða spennt í ímyndunarleik sem þau sjálf skapa og stjórna.

Í leik geta börn skapað sinn eigin heim þar sem allt sem þau vilja og kjósa er leyfilegt. Hugsið ykkur bara að geta dvalið í eigin heimi þar sem má fá ís í morgunmat alla daga. Heim þar sem eru engin hræðileg skordýr að trufla mann, nú eða fullt af spennandi skordýrum fyrir þá sem vilja slíkt. Ímyndunar- og hlutverkaleikur gefur börnum einnig tækifæri til að æfa og sýna umhyggju og samúð. Sjáið bara fyrir ykkur ungt barn sem hugsar um dúkkuna sína af alúð og nærgætni.

 

 

Sjálfstæður leikur eflir vitrænan þroska á svo marga vegu. Ákvarðanataka, athygli, skipulagsfærni, skynsemi og dómgreind styrkist þegar börn hafa frelsi til að skapa sinn eigin leik auk þess sem það byggir upp elju og seiglu.

Börn þurfa að ákveða hvað þau ætla að leika með, þau þurfa að skapa leikinn og þau þurfa að halda athygli á leiknum. Ef það kemur upp mótlæti í leiknum þurfa þau að nota skynsemi sína og dómgreind til að leysa úr vandanum. Þegar þau staldra við, halda áfram með verkefnið sitt, vinna að því að finna lausnir og gefast ekki upp eru þau að byggja upp elju og seiglu.

 

 

Samleikur styrkir félagsfærni barna. Þegar börn leika sér saman eflir það samvinnu. Börn læra að leysa úr ágreiningi sem kann að koma upp og geta þurft að gera málamiðlanir. Þau þurfa að læra að bera kennsl á og bregðast við tilfinningum annara og sýna samkennd. Þau læra að fylgja reglum leiksins. Þessi lærdómur fylgir þeim út í lífið og hjálpar þeim að skilja reglur samfélagsins. Þegar börn leika við aðra eflir það samskiptahæfileika þeirra. Þau læra að þekkja svipbrigði og líkamstjáningu. Þau læra að tjá skoðanir sínar og langanir í hóp á farsælan hátt.

 

  

Frjáls leikur hvetur börn til þess að hreyfa sig og eflir hreyfiþroska þeirra. Í frjálsum leik styrkja börn samhæfingu, jafnvægi, grófhreyfingar og fínhreyfingar.

Sjáið bara fyrir ykkur ungbarn sem byrjar að fikra sig áfram til þess að ná í spennandi leikföng, lærir þannig að skríða og æfir þar með samhæfingu. Sjáið fyrir ykkur barn sem prílar eða æfir sig að labba eftir línu og æfir jafnvægið eða barn sem finnst gaman að perla og æfir fínhreyfingar.

 

 

Börn eru alltaf að læra, þjálfast, styrkjast og eflast í leik. Alltaf!

Leikur er ólíkur eftir hverju barni. Það hentar ekki öllum börnum að sitja og kubba. Það eru ekki öll börn sem vilja fara í hlutverkaleiki. Það hafa ekki öll börn áhuga á bílaleikjum. Leikur getur verið óskipulagður, hávær og plássfrekur. Leikur er allskonar.

Ég þurfti alveg að minna mig á það þegar eldra barnið mitt tók tímabil þar sem hann elskaði ruslabíl sem hann fékk í gjöf og fór ítrekað í endurvinnsluleik heima með tilheyrandi óreiðu 😉

 

Bestu kveðjur og gleðilegan leik!
Sigrún Yrja