10 leikföng sem eiga heima á hverju leiksvæði
Feb 25, 2023Leikur er eitt það mikilvægasta sem börn taka sér fyrir hendur. Í gegnum leikinn dafna börn og þroskast. Leiksvæði barna er því svolítið eins og vinnusvæði þeirra og leikföngin eru eins og verkfærin. Mig langar því að nefna hér 10 leikföng sem ættu að eiga heima á hverju leiksvæði. Leikföng sem endast hverju barni lengi og eflir þroska þeirra.
NÚMER EITT
Gott kubbasett er að mínu mati mikilvægasti grunnur á hverju leiksvæði. Með góðu kubbasetti er hægt að skapa allskyns ævintýraveröld. Persónulega er ég hrifnust af trékubbum. Við höfum núna átt Clever Up kubbasett í nokkra mánuði og ég er mjög ánægð með það! Stærsta settið er ansi fjölbreytt og fær öll mín meðmæli.
NÚMER TVÖ
Kubbar geta verið allskonar og mig langar að setja “öðruvísi kubba” í sér flokk hér. Sveigðir kubbar eins og Abel kubbar hafa verið mjög vinsælir á okkar heimili. Gimsteinakubbar eru mikið nýttir til að skreyta allskyns byggingar og önnur sköpunarverk. Skynjunarkubbar hafa líka verið ansi vinsælir hér í gegnum tíðina.
NÚMER ÞRJÚ
Segulkubbar eru örugglega til á flestum barnaheimilum landsins og það er engin furða! Segulkubbar eru hreinlega alger snilld!! Ég hef oft sagt að það er aldrei hægt að eiga of mikið af segulkubbum. Eftir því sem börn eldast og verða færari í að byggja því fleiri kubba þurfa þau. Stór börn vilja byggja stórt!
NÚMER FJÖGUR
Öll börn sem ég hef kynnst hafa á einhverjum tímapunkti haft gaman að því að leika sér með dýr. Dýr ættu því að vera skyldueign allra barna. Ekki bara er það skemmtilegt í allskonar leiki heldur býður það líka upp á svo mikinn lærdóm að leika með mismunandi dýr. Börn læra hvað dýrin heita, hvað afkvæmi þeirra heita og hvað dýrin segja. Þegar börn verða eldri vilja þau jafnvel vita hvað dýrin borða, hvar þau lifa, hvernig þau haga sér og fleira.
NÚMER FIMM
Fígúrur eru mikilvæg viðbót við hvert leiksvæði. Ég er ofsalega hrifin af Grapat fígúrunum því þær eru einfaldar og látlausar og geta þannig þjónað hvaða hlutverki sem er og veita börnum fullkomið frelsi í leiknum. Sama fígúran getur verið afi, hjúkrunarfræðingur, barn, vörubílstjóri, arkitekt, kennari, Gunna frænka, draugur, læknir og svona gæti ég lengi talið.
NÚMER SEX
Börn af öllum kynjum ættu að fá tækifæri til að leika með dúkkur og annast þær. Dúkkuleikur gefur börnum tækifæri til að herma eftir því sem þau sjá og upplifa í umhverfi sínu. Að leika með dúkkur eflir félagsþroska barna, samkennd, ímyndunarafl, orðaforða, fínhreyfingar og fleira.
NÚMER SJÖ
Bílar og götur (eða lestir og lestarteinar) eru líka leikföng sem börn af öllum kynjum ættu að fá tækifæri til að leika með.
NÚMER ÁTTA
Lausamunir (e. loose parts) er eitthvað sem börn geta fært á milli, borið með sér í lófanum, í vasanum eða í töskum. Eitthvað sem þau geta staflað eða raðað. Eitthvað sem þau geta notað eitt og sér eða með öðrum efnivið. Það eru engar reglur um hvernig á að nota lausamuni heldur er það undir barninu sjálfu og ímyndunarafli þess komið hvernig leikurinn þróast.
NÚMER NÍU
Leikklútar er opinn efniviður sem má nota á ótal ólíka vegu – sem sögusvið fyrir hvers kyns leiki, sem búninga, til að hlaupa um í vindinum og fleira.
NÚMER TÍU
Að lokum langar mig að nefna hreyfileikföng en börn hafa náttúrulega þörf fyrir að hreyfa kroppinn sinn. Útivera er auðvitað best til þess fallin að efla hreyfiþroska barna en á milli þess sem börn njóta útiverunnar getur verið frábært fyrir börn að hafa aðgang að góðum hreyfileikföngum inni.
Eins og ég sagði hér í byrjun mætti líta á leikföng sem verkfæri barna sem ýtir undir þroska og nám. Börn þurfa ekki endilega mikið af leikföngum en það er gagnlegt að velja vönduð og góð leikföng.
Öll leikföngin sem sjást á myndunum í þessum pósti fást hjá Regnboganum. Hjá Regnboganum er virkilega gott úrval af vönduðum leikföngum sem fá öll mín meðmæli.
BESTU KVEÐJUR
Sigrún Yrja
Þessi færsla er unnin í samstarfi við Regnbogann verslun.