Þvottastöð í vaskinum

frjáls leikur skynjunarleikir Sep 29, 2021
 

 

Að setja upp þvottastöð í vaskinum tekur örugglega ekki nema svona 2 mínútur en getur haft ofan af fyrir krökkum lengi. Í mínum bókum er það uppskrift að góðri afþreyingu fyrir börn!

Það kannast eflaust margir við eirðarleysi og þreytu hjá litlu fólki í lok dags, einmitt þegar verið er að sinna eldamennsku, heimilisstörfum, heimanámi og öðru tilfallandi. Þá er kjörið að setja upp þvottastöð í eldhúsvaskinum! Það getur verið svo notalegt að hafa börnin hjá sér þegar verið er að elda kvöldmat og nýta tímann í að spjalla um daginn.

 

Hér er verið að þrífa húsdýrin

 

Það þarf ekki annað en að setja smá vatn í vaskinn, sletta smá sápu út í, uppþvottabursta eða pottasvamp og svo nokkur leikföng sem mega fara í vatn. Við höfum þrifið kubba, plastdýr og baðleikföng. Á mínu heimili er nauðsynlegt að hafa stórt og gott handklæði á gólfinu undir vaskinum á meðan þvottastöðin er opin.

 

Hér er ég búin að setja bökunarkakó á dýrin til að gera þau skítug

 


 

Það er ekkert bara á "úlfatímanum" sem er sniðugt að bjóða uppá þvottastöð. Ég hef líka gert það bara til þess eins að bjóða upp á sull og skemmtilegheit. Þá hef ég haft aðeins meira fyrir hlutunum og jafnvel gefið mér tíma til að gera nokkur leikföng skítug þannig að það sé skemmtilegra að þrífa þau. Það gerði ég með því að bleyta leikföngin aðeins og strá bökunarkakói yfir. Þannig festist kakóið við leikföngin og þau verða drulluskítug! Ég hef boðið upp á slíkt í eldhúsvaskinum, baðvaskinum og líka í Flisat borðinu okkar úr IKEA.

Þegar ég hef notað Flisat borðið hef ég sett skítugu leikföngin í einn bakka, sápuvatn eða froðu í einn bakka, hreint vatn í þann þriðja og hef svo lítið handklæði eða viskastykki í botninum á fjórða bakkanum. Spreybrúsi, svampur, uppþvottabursti eða tannbursti eru vinsæl áhöld til að þrífa drulluna af dýrunum. Ég set borðið inn á baðherbergi því ég veit að það fer vatn út um allt þegar svona sull er í boði. Með því að setja þetta upp inni á baðherbergi þarf ég ekki að hafa áhyggjur af parketinu og get bara moppað bleytuna upp að loknum leik.

 

Þvottastöð sett upp í leikborðinu okkar