Hvernig best er að skipuleggja leiksvæði

leikföng leiksvæði skipulag Jan 05, 2022

 

Ég veit ekki með ykkur en það þarf klárlega að endurskipuleggja og græja á leiksvæðinu okkar eftir jólagjafaflóðið. Ef þú ert í svipaðri stöðu er þetta póstur fyrir þig!

Flest börn fá einhver ný leikföng um jólin og það þarf að finna þeim stað á leiksvæðinu eða í barnaherberginu. Einfaldast er bara að troða aðeins betur í dótakassana eða ýta leikföngum til í hillunni til að koma þeim nýju fyrir. Einfaldast en kannski ekki það skynsamlegasta ;) 

Börn eiga auðveldara með að detta í leik ef leiksvæðið er vel skipulagt og ekki ofhlaðið leikföngum. Þess vegna er góð hugmynd að fara vel í gegnum leikskvæðið og öll leikföngin nú í upphafi árs. Ég veit það getur verið yfirþyrmandi tilhugsun að takast á við slíkt verkefni. En allar líkur eru á að börnin munu leika meira eftirá!

 

 

Fyrst þarf að fara í gegnum öll leikföngin:

  • Fyrsta skrefið er að fara í gegnum allar hirslur. Það er ekki óalgengt að leikföng rati á rangan stað með tíð og tíma sem á endanum skapar mikla óreiðu.

  • Takið til hliðar ónýt, biluð eða brotin leikföng. Lagið það sem hægt er að laga og losið ykkur við rest á viðeigandi staði (á Sorpu, Rauða Krossinn eða slíkt).

  • Setjið í geymslu leikföng sem barnið sýnir ekki áhuga núna en geta nýst síðar meir.

 

Þegar búið er að fara í gegnum allar hirslur og öll leikföng er gott að skipuleggja leiksvæðið þannig að börnin eigi auðvelt með að byrja að leika sér. Ég mæli með að hafa sem minnst í lokuðum hirslum eða kössum. Það er auðveldara fyrir börn að ná í leikföng úr opnum hillum og þegar þau sjá hvaða leikföng eru í boði er líka meiri freisting að byrja að leika sér. 

 

 

Yngri börn ráða illa við lokaðar hirslur og þurfa sérstaklega á því að halda að leikföng séu í opnum hillum. Það má til dæmis setja leikföng í lágar körfur og svo í hilluna. Þannig sjá börn hvað er í körfunni, eiga auðvelt með að ná í leikföngin og þar sem þau eru í körfu fara þau síður út um allt.

 

 

Þegar öll leikföng eiga sinn stað er auðvelt að taka til og ganga frá en það sem skiptir mestu máli er að þá er auðveldara að leika sér. Þá geta börn nefnilega gengið að ákveðnum leikföngum á vísum stað þegar þeim dettur í hug einhver snilld í miðjum leik!

 

Gangi ykkur vel að skipuleggja leiksvæði barnanna og ekki hika við að heyra í mér ef það eru einhverjar spurningar sem þið hafið :)

- Sigrún Yrja -