Að skipuleggja leiksvæði

Jan 04, 2023

Janúar er góður tími til að skipuleggja leiksvæði barnanna. Yfirleitt eru komin fleiri leikföng á heimilið eftir jólahátíðina og einhvert þurfa þau leikföng að fara.

Ég tala alltaf um leiksvæði en það er það svæði sem börn hafa til að leika sér. Hvort sem það er í herberginu þeirra, í stofunni, eldhúsinu eða annars staðar í húsinu. Hér höfum við til dæmis nokkur leiksvæði. Börnin hafa hvort sitt herbergið þar sem þau hafa eitthvað af sínum persónulegu leikföngum. Síðan höfum við gott leiksvæði í stofunni þar sem við geymum sameiginleg leikföng. Í eldhúsinu fá börnin að leira, föndra, mála, lita og annað slíkt.

Nú er staðan á okkar heimili þannig að það þarf að laga til í skipulaginu á öllum vígvöllum! Það skiptir máli að leiksvæði barna séu vel skipulögð og snyrtileg. Ekki bara til að það líti vel út heldur hefur það áhrif á leik barnanna hvernig leiksvæðin eru sett upp. Þegar börn vita hvar hlutir eru og geta gengið beint að þeim eflir það sjálfstæði barna í leik. Ég hef séð að það er líka auðveldara fyrir börn að taka til þegar allt á sinn stað og börn vita hvert þau eiga að setja leikföngin sín.

 

Það getur verið yfirþyrmandi að skipuleggja leiksvæðin og erfitt að byrja. Þannig að hér eru mín ráð um hvernig sé best að standa að skipulagningunni.

Farðu í gegnum leikföngin – fyrst er gott að fara yfir öll leikföng barnsins og taka út það sem er ónýtt eða börnin hætt að leika með. Það er góð hugmynd að hafa börnin með í þessu ferli en fer auðvitað eftir aldri og þroska barna.

  1. Hentu ónýtum leikföngum (ekki gleyma endurvinnslu)
  2. Gefðu leikföng sem barnið er hætt að nota og þú sérð ekki fram á að verði notað aftur
  3. Settu í geymslu leikföng sem barnið notar lítið eða ekkert þessa stundina en þú heldur að nýtist aftur síðar.

 

Hafðu leikföngin sýnileg – Ef börn sjá ekki leikföngin er líklegra að þau gleymist (out of sight, out of mind). Ég mæli því með að nota lágar körfur eða kassa. Það er líka sniðugt að nota kassa sem hægt er að sjá í gegnum. Sum leikföng mega svo fara bara beint í hilluna.

 

Öll leikföng þurfa að eiga sinn stað – Þegar allt er í einum graut getur verið yfirþyrmandi fyrir börn að finna það sem þau leita að og þau gefast upp. En ef börn vita nákvæmlega hvar þau finna það sem þau leita að einfaldar það leikinn þeirra og þau eiga auðveldara með að leika sér sjálfstætt.

Ef barn vill til dæmis sækja sér kindur til að nota í sveitaleiknum og veit að kindurnar eru á sínum stað í ákveðinni körfu þá er lítið mál að ná í þær. En ef kindurnar eru hugsanlega á botninum í einhverjum kassa sem þarf að róta uppúr þá geta barninu fallist hendur og það hættir að leika.

 

Fjarlægðu það sem börnin eiga ekki að komast í án eftirlits – það er mikilvægt að börn komist ekki óvart í eitthvað sem þau ættu ekki nota sjálf. Ég geymi til dæmis glimmer og fleira föndurtengt í efri skápum af því að ég vil ekki að börnin noti það án aðstoðar. En svo er föndurefni sem þau mega nota sjálf í þeirra hæð og þau geta náð í það sjálf og leikið sér sjálfstætt. 

 

Merkingar geta hjálpað til við að halda skipulaginu í lagi – fyrir nokkrum árum þá merkti ég alla leikfangakassana og það hefur hjálpað gríðarlega við að halda skipulaginu í lagi! Það hefur hjálpað pabbanum mikið þegar tekið er til að allt er svona vel merkt – börnin muna frekar bara hvar allt á heima 😉 En það hefur líka verið mjög gagnlegt þegar hingað koma gestabörn að allt sé merkt. Það er erfitt að vera gestkomandi að taka til og vita ekki hvar hlutir eiga heima. Þegar leikföngin eiga sinn stað sem er merktur er ekkert mál að hjálpa við tiltekt áður en vinirnir fara heim. 

 

Taktu mið af aldri og þroska barnins - Leiksvæði ættu að þróast með hækkandi aldri barna. Yngstu börnin þurfa lítið af leikföngum og helst ættu öll leikföngin að vera barninu sýnileg og þannig að barnið eigi auðvelt að ná í þau sjálf. Barn sem getur ekki sjálft náð í dótakassann og byrjað að leika þarf að treysta meira á foreldra sína svo það hindrar sjálfstæðan leik. Eftir því sem börn eldast og þroskast er svo hægt að fjölga leikföngum og breyta skipulagi leiksvæðis. 

 

Gangi þér vel að skipuleggja leiksvæðin - ef þú hefur einhverjar spurningar máttu alltaf senda mér skilaboð!

- Sigrún Yrja -