Sandleir

skynjunarleikir uppskriftir Aug 07, 2021

Ef þú ert að leita eftir skemmtilegri afþreyingu fyrir börnin þín mæli ég með að gera sandleir með þeim! Sandleir er skemmtilegur fyrir börn á öllum aldri því hann býður uppá svo marga möguleika. Yngstu börnin hafa gaman af því að sitja og moka sandleirnum í skálar eða fötur og setja hendurnar í sandleirinn og finna áferðina. Eldri börn geta skemmt sér við að móta eitthvað spennandi úr sandleirnum. Sé honum þjappað í form heldur hann forminu vel og því er hægt að byggja kastala úr sandleirnum, afmæliskökur, ís og hvað annað sem ykkur dettur í hug.

Það er líka ótrúlega einfalt að gera sandleir og líklega áttu nú þegar til allt sem til þarf í eldhúsinu þínu! Það eina sem þarf til að gera skemmtilegan sandleir er hveiti og matarolía. Ef þú vilt hafa sandleirinn litaðan geturðu bætt matarlit út í eða jafnvel bökunarkakói viljirðu fá brúnan sandleir sem mætti þá nota sem mold í leik.

 

Sandleir

8 einingar hveiti
1 eining matarolía
Matarlitur – slatti

Það skiptir ekki máli hvaða mælieiningu þú notar þegar þú gerir sandleir. Það eina sem skiptir máli er að nota sömu mælieininguna til að mæla hveitið og matarolíu. Ég hef notað allt frá matskeið (til að gera örlítið) og upp í bollamál.

Best finnst mér að byrja á að hræra saman olíu og matarlit. Venjulegur matarlitur blandast ekki saman við olíuna en með því að hræra þetta saman brotnar matarliturinn upp í marga litla dropa sem blandast þá betur við hveitið. 

Bættu svo hveitinu saman við og hrærðu aðeins með skeið. Síðan er best að nota hendurnar til að mylja allt saman. Það er til dæmis frábær æfing fyrir litla fingur! 

Svona lítur blandan út fyrst um sinn. Best er að mylja blönduna með höndunum. Athugaðu að matarliturinn gæti skilið eftir lit á höndunum þannig að það getur verið sniðugt að fara í gúmmíhanska.

Sandleir geymist ótrúlega lengi í lokuðum umbúðum. Við erum búin að eiga okkar skammt núna í tvö ár!

Til að gera brúnan sandleir er frábært að nota bökunarkakó. Sandleirinn lyktar þá eins og dýrindis súkkulaði! Til að gera brúnan sandleir set ég 1-2 einingar bökunarkakó í staðin fyrir hveiti. Þá gæti uppskriftin litið svona út: 

7 einingar hveiti
1 eining bökunarkakó
1 eining matarolía

 

Það má líka blanda allskonar sniðugu út í sandleirinn til að gera hann skemmtilegri. Ég hef til dæmis blandað glimmeri út í hann og líka kökuskrauti. Það vakti bæði mikla lukku, sérstaklega þegar ég svo síðar blandaði saman glimmer sandleirnum og kökuskrauts sandleirnum - þvílík veisla! Þú getur séð nokkrar myndir af því hér fyrir neðan

 

 


Fyrir frekari upplýsingar um skynjunarleiki, svosem hvað það nú eiginlega er, gagnsemi þeirra, góð ráð til að setja upp og ganga frá skynjunarleikjum, bendi ég á rafbókina um skynjunarleiki. Þar fer ég yfir allt sem þú þarft að vita til að setja upp skynjunarleiki fyrir börnin þín á einfaldan og öruggan hátt. Ýttu hér til að kaupa rafbókina