Leikföng í uppáhaldi - PlanToys

frjáls leikur leikföng Sep 22, 2021

 

Þegar ég fór að huga meira að leik barnanna minna fyrir nokkrum árum fór ég ósjálfrátt að huga betur að leikfangavali á sama tíma. Ég áttaði mig á að val á leikföngum getur haft meiri áhrif á leik barna en mig hafði grunað. Það sem mér finnst mikilvægt þegar kemur að leikföngum er að þau séu hönnuð þannig að barnið sjái sjálft um að stjórna leikfanginu og efli þar með ímyndunarafl sitt.

 

 

Ég kýs vönduð leikföng sem má nota á fjölbreyttan hátt þannig að barnið geti nýtt það í mörg ár en endist ekki bara rétt á milli afmæla.

Fyrir nokkrum árum kynntist ég PlanToys leikföngunum og ég verð alltaf hrifnari og hrifnari af þeim og þeirri hugsjón sem fyrirtækið stendur fyrir. Mig langar því að deila með ykkur hvað það er við PlanToys leikföngin sem mér finnst svona frábært!

 

 

Það er þrennt sem mig langar að deila með ykkur sem mér finnst svo merkilegt um PlanToys fyrirtækið. Það er hugmyndafræði þeirra þegar kemur að leik, samfélagsleg ábyrgð fyrirtækisins og náttúruverndarsjónarmið.

Upphaflega var ég hrifin af PlanToys leikföngunum því þetta eru virkilega vönduð leikföng sem eru hönnuð þannig að barnið stjórnar sjálft hvernig þau eru notuð í leik. Hugmyndafræði PlanToys um leik barna passar nefnilega fullkomlega við mín gildi að leikur sé eitt það mikilvægasta sem börn taka sér fyrir hendur. Leikur er þeirra vinna.

 

 

Þegar börn leika sér frjálst í skapandi leik eflir það þroska þeirra á allan hátt – líkamlega, tilfinningalega, vitsmunalega, félagslega og fleira. Leikföngin frá PlanToys eru hönnuð með allt þetta í huga

Það var síðar sem ég fór að taka eftir náttúruverndarsjónarmiðum fyrirtækisins. Ég tók eftir að leikföngin koma ekki í plastumbúðum. Jafnvel leikfangasett þar sem eru margir litlir partar er aðeins pakkað í pappaumbúðir. Nýleg stefna fyrirtækisins leggur einnig áherslu á að endurnýta gamlar umbúðir og minnka allan auka pappír.

 

 

PlanToys leggur mikla áherslu á sjálfbærni, enda eru einkunnarorð fyrirtækisins ‘Sjálfbær leikur’. Efniviðurinn sem notaður er í leikföngin eru gúmmítré sem ekki nýtast lengur til framleiðslu á gúmmí og væru almennt brennd. En í staðin nýtir fyrirtækið trén og hefur þannig framleitt tréleikföng í 40 ár án þess að eitt einasta tré hefur verið hoggið niður sérstaklega fyrir framleiðsluna! Það finnst mér mjög tilkomumikið!

 

 

Verksmiðja PlanToys er í suðurhluta Tælands þar sem eru stórar gúmmítrjáa plantekrur. Það er engin tilviljun. Rúmlega 70% af efniviðnum sem er notaður í framleiðslu leikfanganna er fenginn af 30 kílómetra radíus frá verksmiðjunni. Fyrirtækið sýnir þannig mikla samfélagslega ábyrgð með því að versla við bændur í nágrenninu, og á sama tíma dregur það úr mengun sem annars kæmi af flutningi efnisins.

Það er ótrúlega gaman að skoða hvað fyrirtækið virðist hugsa út í allt þegar kemur að framleiðslunni og finna leiðir til að draga úr mengun, nýta efnið sem allra mest, gæta að samfélaginu og fleira. Því meira sem ég læri um fyrirtækið því hrifnari verð ég!

 

 

Allt sag sem myndast í framleiðsluferlinu er meira að segja nýtt! Saginu er blandað saman við náttúruleg litarefni, það sett í mót og hitað með því að brenna stærri afskurði sem falla til í framleiðsluferlinu. 

Þannig eru búin til leikföng úr því sem fyrirtækið kallar PlanWood. Það eru leikföng eins og litlu skálarnar sem þú sérð hér aðeins ofar, baðleikföngin, litlu dýrin og dýrapúslin og meira til. Kíkið endilega á myndbandið hér fyrir neðan til að sjá hvernig sagið er nýtt!

 

 

Ég virkilega mæli með að þið kíkið á úrvalið hjá plantoys.is Þar má nefnilega finna leikföng fyrir börn á öllum aldri og sem henta fyrir allan leik; ungbarnaleikföng, leikföng í hlutverkaleikina, hreyfileikföng, tónlistarleikföng, kubbar, skynjunarleikföng, bílar, dúkkuhús og fylgihlutir, leikföng sem efla rökhugsun og fleira. 

 

Um allt land má finna verslanir sem selja vörur frá PlanToys.
Hér getur þú séð frekari upplýsingar um sölustaði. 

 

Þessi færsla er unnin í samstarfi með plantoys.is
Skoðanir og umfjöllun er frá mér sjálfri komin