Lærðu börnin eitthvað í sumar?

Sep 08, 2022

 

Börn læra frá því að þau fæðast. Fyrstu árin eru börn að læra hverja vökustund. Þau eru annað hvort sofandi eða að læra eitthvað nýtt. Þegar börn síðan byrja í skóla, hvort sem það er leikskóli eða grunnskóli, þá er það ekki þannig að börn læri bara í skólanum. Við sem foreldrar/umönnunaraðilar þurfum að muna að börn eru stöðugt að læra og það er hlutverk okkar að styðja við þeirra nám. Hvort sem það fer fram í skólanum eða utan hans.

Í sumar fórum við fjölskyldan í fimm vikna ferðalag og mig langar að deila með ykkur sumu af því sem börnin mín lærðu og kynntust í ferðalaginu.

 

 

Við fórum með Norrænu frá Seyðisfirði til Danmerkur þannig að þau kynntust aðeins lífinu á sjó. Við fengum ekki gott í sjóinn. Það var um 5 metra ölduhæð um tíma bæði á leiðinni út og á leiðinni heim. Það var því mikill veltingur! Um borð heyrðu þau mikið færeysku. Færeyska heyrðist í kallkerfi skipsins og við fórum á töfrasýningu og í ratleik á færeysku. Þau kynntust síðan dönskunni í Danmörku og norskunni í Noregi. Þau sáu Færeyjar en við fórum ekki í land. Við sáum líka Hjaltlandseyjar á leiðinni. Þau sáu hversu ólíkt landslagið er í Danmörku og Noregi. Það var því heilmikil landafræði og tungumálakennsla í ferðalaginu.

 

 

Þau lærðu að nota peninga. Þau fengu vasapening bæði í Danmörku og Noregi sem þau máttu nota í það sem þau vildu. Þannig að þegar þau báðu um eitthvað var það þeirra peningur sem þau þurftu að nota. Þau þurftu því að vega og meta hvort þau vildu nota peningana sína eða ekki. Það var reyndar ekki alveg nýtt fyrir þeim því við höfum gefið þeim vasapeninga í nokkra mánuði. En í ferðalaginu var meira um freistingar en hér heima þannig að þau þurftu að vera skynsöm með peningana sína þannig að þau væru ekki búin að eyða öllu í byrjun og áttu svo ekkert restina af ferðinni. Strákurinn okkar lærði heilmikið um gjaldmiðla í ferðinni (litla konan er enn of ung). Hann lærði að þegar eitthvað kostaði 50 danskar krónur kostaði það um það bil 1000 íslenskar krónur. En þegar eitthvað kostaði 50 norskar krónur þá kostaði það tæplega 750 íslensar krónur. Það er engin smá stærðfræðiskilningur þar!

 

 

Þau lærðu að eiga samskipti við önnur börn þó þau töluðu ekki sama tungumál. Ég elskaði að sjá hvað þau voru óhrædd við að taka pláss á leiksvæðum, söfnum og sýningum þar sem var fullt af börnum sem þau gátu ekki gert sig skiljanleg við. Þau  Þau fóru til dæmis á tilraunasýningu í Noregi og sátu á fremsta bekk og þau tróðu sér fremst að sjá sjávardýr sem var verið að sýna og segja frá á norsku.

 

 

Þau tíndu kirsuber beint af trjánum og borðuðu. Þau sáu eplatré, perutré og ferskjutré.

Strákurinn okkar lærði að róa en það hefur verið mikill draumur hjá honum. Hann fékk að róa sjálfur á upplásnum bát við ströndina.

Þau lærðu að veiða krabba.

Þau lærðu að það eru endalausir ísar hjá ömmu í Danmörku. Þau lærðu að afi í Noregi nennir endalausu hnoði og brölti.

Þau lærðu að brenninetlur brenna og þau lærðu að marglyttur brenna meira!

Þau lærðu að í Danmörku eru til geitungar á stærð við litla puttann á mömmu þeirra – við um það bil skitum öllu á okkur af hræðslu!

 

Það eru alls staðar tækifæri til náms og þroska fyrir börn!