Mér leiðist!

Mar 10, 2023

Mér leeeeeeeeiðist!

Hver hefur ekki heyrt þessa setningu? Kannski ekki foreldrar mjög ungra barna – en það eru allar líkur á að þessi fleygu orð muni heyrast einhvertíman í lífi allra barna. Sonur minn var rúmlega 4 ára þegar hann kvartaði fyrst undan því að sér leiddist. Mig grunar að það sé frekar seint að byrja að nota þetta hugtak. Hann hefur alltaf verið með góðan málþroska svo ekki voru það vandræði við að tjá sig sem olli því að hann var í seinna lagi með þetta orð. Við bara töluðum aldrei um að okkur leiddist á heimilinu og þó að ég sæi greinilega að stundum leiddist börnunum þá var ég ekki að setja orð á það fyrir þau.

Það sem var svo áhugavert er að þegar hann byrjaði að nota þetta orð þá virtist hann vera með einhverjar væntingar til mín um að bjarga málunum. Hann lærði það fljótt drengurinn að það truflar mig ekki þó börnum leiðist, mér finnst það bara frábært!

Eins og ég sagði þá hafði honum oft leiðst áður en hann fór að setja orð á það. Mér þótti í sannleika sagt ansi skemmtilegt að fylgjast með honum þegar það gerðist. Þá væflaðist hann um íbúðina með ekkert sérstakt fyrir stafni, lagðist kannski í gólfið og var greinilega að spá og spekúlera í lífinu og tilverunni. Svo gerðust töfrarnir – hann fann sér eitthvað að gera! Datt í djúpan og góðan leik, skapaði eitthvað alveg sérstakt og virkilega naut sín.

Það er nefnilega bara jákvætt að börnum leiðist og það er mikilvægt að við sem foreldrar munum það. Tilfinningin að vilja vernda börnin fyrir öllu erfiðu í lífinu getur verið svo sterk og þegar þessi litli einstaklingur segir alveg miður sín „mér leiðist svooooo mikið“ þá getur komið þessi þörf að vilja bjarga málunum. Það er svo auðvelt að kveikja bara á sjónvarpinu eða rétta barninu spjaldtölvu eða síma til þess að hafa ofan af fyrir því. En við gerum börnum enga greiða með því! Þvert á móti værum við með því að ræna þau tækifæri til þess að virkja sköpunarkrafta sína og hugmyndaflug. Það eru nefnilega fjölmargar rannsóknir sem sýna að börn og fullorðnir eru meira skapandi þegar þeim leiðist. Það að láta sér leiðast stuðlar líka að andlegri vellíðan því það er svo gott fyrir hugann að fá örlitla pásu frá áreiti. Svo er það líka hvetjandi fyrir börn að finna sér sjálf eitthvað að gera ef okkur foreldrunum tekst að halda aftur af okkur og rjúka ekki í að finna eitthvað áhugavert verkefni fyrir barnið. Það stuðlar síðan að meiri sjálfstæðum leik síðar meir – win win!

Ef þú vilt aðstoða barnið þitt þegar því leiðist þá mæli ég með að gera eins lítið og hægt er. Þegar sonur minn var þarna rúmlega 4 ára var hann eitt sinn alveg miður sín af því honum leiddist svo svakalega mikið og vildi auðvitað að ég myndi bjarga málunum. Ég útskýrði fyrir honum að það væri í rauninni ekki vandamál að honum leiddist og sérstaklega ekki mitt vandamál. Ég spurði hann svo hvort hann væri í stuði til þess að leika á leiksvæðinu eða hvort hann vildi kúra með mér inni í herbergi með bók eða hlusta á sögu. Honum leist á hvoruga tillöguna mína. Honum leiddist bara eitthvað áfram og svo fann hann sér eitthvað sniðugt að gera.

Eitt sem mig langar að segja að lokum – það eru ekki bara börn sem hafa gott af því að láta sér leiðast! Hvenær leiddist þér síðast? Við fullorðna fólkið höfum alltaf svo mikið að gera og það er lítill tími sem við höfum aflögu. Tæknin sér síðan til þess að hafa ofan af fyrir okkur þegar við höfum nokkrar lausar mínútur á milli verkefna eða ef við erum á bið einhversstaðar. Ég hef markvisst verið að vinna í því að leyfa mér að leiðast t.d. þegar ég sit á biðstofu hjá lækni eða eitthvað álíka. Það er miklu auðveldara að grípa símann og skruna niður instagram. En það er ótrúlega notalegt þegar maður gefur sér svolítið frí og leyfir huganum að reika og dagdreyma. Ég mana þig til þess að gera það næst þegar þú situr á biðstofu að gera ekkert! Ekki fletta tímariti, ekki lesa bók og ekki taka upp símann. Sittu bara og vertu.

 

Bestu kveðjur
Sigrún Yrja