Lituð hrísgrjón

Aug 07, 2021
 

Börnin mín hafa alltaf elskað skynjunarleiki (sensory play) og geta leikið sér mjög lengi þegar ég býð uppá svoleiðis afþreyingu. Það er rosalega misjafnt hverskonar efnivið ég býð uppá hverju sinni en uppáhalds þurri efniviðurinn í skynjunarleiki á þessu heimili eru lituð hrísgrjón.

Meira að segja ég stenst aldrei að renna fingrunum í gegnum hrísgrjónin þegar við drögum þau fram. Það er eitthvað svo róandi og notalegt við það að sökkva höndunum ofan í öll þessi grjón. Það er því ekki skrítið að börnin njóti sín lengi þegar þau fá tækifæri til að leika með hrísgrjón.

Það er mjög einfalt að lita hrísgrjón og tilvalið að leyfa börnunum að taka þátt í því.

 

Lituð hrísgrjón - uppskrift

1 bolli hrísgrjón
1 msk borðedik
½ til 1 tsk matarlitur

Allt sett í skál og hrært saman þar til öll hrísgrjónin eru lituð. Það er ekkert mál að bæta við smá matarlit ef þú vilt fá sterkari lit á hrísgrjónin. Hrísgrjónunum er svo dreift á bökunarpappír og látin þorna í nokkrar klukkustundir. Það ætti ekki að taka meira en tvær til þrjár klukkustundir að þorna en það fer auðvitað eftir því hversu þunnt þú dreifir hrísgrjónunum. 

 

Annað slagið er ég spurð af hverju ég nota borðedik þegar ég lita hrísgrjón. Það er til þess að hrísgrjónin taki betur við matarlitnum. Liturinn dreifist betur og er sterkari. Sjáiði bara þessa geggjuðu liti á myndinni hér fyrir ofan!

Ég reyni að vera meðvituð um umhverfisáhrif og því mæli ég með að nota box í staðin fyrir plastpoka eins og oft er gert. Ég nota alltaf sama boxið til að lita hrísgrjón, pasta eða annan þurrmat og þríf það bara þegar ég er búin að nota það. Einnig endurnýti ég bökunarpappírinn sem ég nota til að láta hrísgrjónin þorna. Það má alveg nota sömu örkina oft. Enn betra væri auðvitað að vera með fjölnota bökunarpappír.

Það tekur vissulega smá tíma að útbúa lituð hrísgrjón en þegar búið er að lita hrísgrjónin og þau eru tilbúin geturðu átt þau í langan langan tíma! Þetta eru jú bara þurr hrísgrjón og þau skemmast ekki. Það er reyndar alltaf einhver rýrnun hjá okkur því það enda alltaf einhver hrísgrjón í ryksugunni að leik loknum. Það bara fylgir.

Þegar leikið er með hrísgrjón eða annan þurrmat mæli ég með því að afmarka leiksvæðið á einhvern hátt. Það má til dæmis gera með því að breiða út lak eða teppi á gólfið, setja grjónin í uppblásna sundlaug, stóran bala eða tóman plastkassa eða leika með þetta í þurru baðkari (með tappann í svo grjónin fari ekki ofan í niðurfallið).

Þó svo að það séu hrísgrjón sem fara út fyrir afmarkaða leiksvæðið þá tekur það mig innan við en 5 mínútur að ganga frá og ryksuga að leik loknum. Sem mér finnst alveg þess virði eftir eins til tveggja tíma leik. Ég er hvort eð er alltaf með ryksuguna á lofti eigandi tvö ung börn.


Fyrir frekari upplýsingar um skynjunarleiki, svosem hvað það nú eiginlega er, gagnsemi þeirra, góð ráð til að setja upp og ganga frá skynjunarleikjum, bendi ég á rafbókina um skynjunarleiki. Þar fer ég yfir allt sem þú þarft að vita til að setja upp skynjunarleiki fyrir börnin þín á einfaldan og öruggan hátt. Ýttu hér til að kaupa rafbókina