Lærðu að lita þurrmat

Sep 15, 2022
 

 

Litaður þurrmatur er frábær grunnur í allskonar skynjunarleiki. Þegar börnin mín voru yngri bauð ég upp á skynjunarleik í hverri viku þannig að ég átti til allskonar grunna í slíka leiki. Ég veit að margir eru feimnir við að prófa að lita þurrmat til að bjóða uppá í leik en trúðu mér, það er miklu minna mál en þú heldur! Lestu þennan póst og kíktu á myndbandið og þá eru þér allir vegir færir að lita þurrmat til að bjóða þínu barni í skemmtilegan skynjunarleik.

 

 

Þurrmatur sem ég hef litað er til dæmis hrísgrjón, pasta og kjúklingabaunir og aðferðin er alltaf sú sama.

Uppskriftin er:
1 bolli þurrmatur
1 teskeið matarlitur
1 matskeið borðedik

Ég set allt saman í box, loka boxinu og hrissti vel saman. Næst set ég blönduna á bökunarpappír, dreifi úr og læt þorna í 1-2 klukkustundir. Þegar litaði þurrmaturinn er þurr viðkomu er hann tilbúinn í leik. 

Ég mæli með að geyma bökunarpappírinn og endurnýta hann ef þú litar þurrmat aftur.

 

 

Algengar spurningar sem ég hef fengið í tengslum við litaðan þurrmat fyrir skynjunarleiki eru:

  • Hvernig á að geyma þurrmatin að leik loknum? Ég mæli með að geyma litaðan þurrmat í lokuðu íláti (boxi eða poka) á þurrum stað svo ekki komist raki eða ryk að. 
  • Hversu lengi endist svona litaður þurrmatur? Í marga mánuði eða ár. Ef það kemur ekki ryk eða raki að litaða matnum ætti hann að endast ansi lengi.
  • Mega börn setja litaðan þurrmat í munninn? Það er ekkert hættulegt innihaldsefni í þeirri aðferð sem ég nota. Það er auðvitað ekki gott fyrir börn að borða óeldaðan þurrmat en það er ekki hættulegt þó að smávegis rati upp í börnin. Mín reynsla segir að börnunum muni finnast það ógeðslegt og spýta því út. En ekki skilja ung börn eftir eftirlitslaus þegar þau leika með þurrmat.
  • Hvenær mega börn byrja að leika með þurrmat? Þegar þú treystir barninu til þess. Dóttir mín var tæplega 1.5 árs þegar hún byrjaði að leika með þurrmat. Hún var alveg heilluð og gat leikið sér ansi lengi!

 

 

Kíktu á myndbandið sem fylgir póstinum og láttu vaða í að lita þurrmat - gangi þér vel og góða skemmtun!


- Sigrún Yrja -