Leiksvæðið okkar

leikföng leiksvæði Jan 26, 2022

 

Í byrjun ársins lagaði ég vel til á leiksvæðinu. Tók út stóra og illa nýtta skúffueiningu og setti í staðin tvær hillur sem voru áður inni hjá litlu konunni. Það er nefnilega betra að hafa leikföng í opnum aðgengilegum hirslum þar sem allt fær gott pláss. Þá sjá börnin betur hvað er í boði og það auðveldar leikinn. Alveg eins og þegar við erum að elda. Það er miklu auðveldara að elda þegar við göngum að hráefnunum vísum frekar en að þurfa að leita og gramsa eftir því sem við þurfum. 

Ég fæ oft spurningar um hirslurnar sem við erum með á leiksvæðinu. Þær eru allar frá ikea en ég ætla að deila með ykkur hvað þær heita og af hverju ég er ánægð með þær.

 

 

Í stærri Trofast einingunum á gólfinu geymum við kubba og stóra bíla. Mig langar að þið takið eftir að það þarf ekki endilega að hafa kassa í Trofast einingunni. Það má líka hafa körfur eða leyfa stórum leikföngum að standa ein og sér í hverju bili eins og við gerum með bílana. 

Ég er ánægð með Trofast einingarnar því það er auðvelt fyrir börn að draga skúffurnar út sjálf. Það þarf ekki endilega að hafa skúffur í einingunni heldur má raða þar körfum, mis stórum kössum og leyfa leikföngum að standa einum og sér. Hæðin á þeim er líka góð þannig að ofan á hirslunum nýtist líka vel sem leiksvæði. 

 

 

Við erum með Trofast vegghillur þar sem við geymum öll dýrin okkar. Hér er ótrúlegt safn dýra og mörg þeirra eru meira en 30 ára. Við flokkum dýrin eftir tegundum og það hefur reynst okkur mjög vel. Stundum vilja börnin bara leika með hesta og þá er auðvelt að ná bara í hestakassann. 

Börnin mín eru núna 4 og 6 ára og eiga auðvelt með að ná í kassana sjálf. Þetta fyrirkomulag hentar ekki endilega fyrir yngri börn nema það eigi að geyma eitthvað sem lítil börn ná ekki í. Mér fannst það til dæmis fínt þegar litla konan var pons að geta geymt í vegghillunum það sem hún var of lítil til að hafa án eftirlits. 

 

 

Hér er ég með Billy bókahillu. Segulkubbarnir hafa átt heima þarna neðst síðan við fluttum inn á þetta heimili. Þarna eiga börnin mjög auðvelt með að ná sér í segulkubba og að hafa þá svona aðgengilega virkar líka mjög hvetjandi að byrja að leika sér. 

Efst í Billy hillunni er ég með þrjár lágar körfur með lausamunum. Körfurnar eru frábærar því þær halda öllu á sínum stað en það er auðvelt fyrir börnin að sjá það sem er í boði. Körfurnar eru servíettustandar úr ikea (heitir Cissan). 

Við hliðina á Billy hillunni er ég með tvær vegghillur úr ikea sem heita Lustigt. Það er misjafnt hvaða leikföng eru í þessari hillu. Mér finnst oft gaman að raða leikföngum fallega upp þarna en það er aldrei ætlast til að börnin raði eins til baka eftir leik. Núna búa fígúrurnar okkar þarna. og sitthvað fleira. 

 

 

Undir stofuglugganum vorum við áður með risa stóra og óhentuga skúffueiningu. Leikföngin sem voru þar enduðu oftast í einum hrærigraut og gleymdust. Undir lokin var ég farin að nota skúffuna bara sem geymslu. 

Mig langaði að koma kubbunum okkar fyrir í opnum hirslum svo ég ákvað að taka þessa Eket einingu úr herbergi litlu konunnar. Ég tók strax eftir að börnin sóttu meira í að leika sér með kubbana eftir að ég gerði það. 

 

 

Þessi litla hilla er líka úr Eket línunni. Húsið er frá Ikea eins og allt annað og heitir Flisat.

 

 

Í Flisat húsinu geymi ég einingakubba. Ég hef tekið eftir að börnin eru miklu duglegri að grípa í einingakubbana í leik þegar þeir eru vel flokkaðir og með gott pláss. Þau vantar kannski ákveðin kubb og geta auðveldlega náð í hann. Það er erfiðara ef þeim er staflað þétt eða í hrúgu í körfu. 

Ég hef líka Smart Lines kubbana frá Just Blocks í húsinu. Ég vil ekki hafa þá í sömu körfu og venjulegu Just Blocks kubbarnir. Ég hljóma eins og gömul plata en ástæðan er bara sú sama, ég vil að börnin geti auðveldlega nálgast það sem þau vantar til að koma hugmyndum sínum í framvæmd. 

 

Takið eftir hvað leikföngin fá mikið rými á leiksvæðinu. Það væri auðvelt að raða þéttar, stafla og setja saman í kassa. En þegar börn hafa góða yfirsýn yfir leikföngin er bæði meira freistandi að byrja að leika og auðveldara að halda leiknum áfram þegar þau vantar eitthvað til að framkvæma það sem þeim dettur í hug.

 

Bestu kveðjur og gleðilegan leik!
Sigrún Yrja