Þau eiga herbergi… en leika alltaf hér
Jun 30, 2025
Af hverju ég ákvað að halda leiksvæðinu fyrir stóru börnin mín – og er svo fegin því í dag!
Þegar við fluttum til Noregs fyrir um tveimur árum voru börnin mín bæði komin á skólaaldur og ég fór að velta því fyrir mér hvort leiksvæði í alrými heimilisins væri enn nauðsynlegt. Við höfðum alltaf haft einhverskonar leiksvæði fyrir þau í alrými heimilisins en nú voru þau komin á þann aldur að þau gátu vel leikið sér sjálf inni hjá sér.
Ég spurði son minn, þá 8 ára, hvort hann héldi að við þyrftum virkilega að útbúa leiksvæði í nýja húsinu.
„Já! Auðvitað!“ svaraði hann, og honum fannst það eiginlega pínu skrýtið að ég væri yfirhöfuð að velta þessu fyrir mér.
Húsið býður vel upp á slíka skipan: Við erum með stofu, borðstofu og sólstofu þar sem við ákváðum að koma fyrir leiksvæði. Rýmið er bjart og aðgengilegt og hefur reynst okkur virkilega vel!
Leikurinn heldur áfram – líka þegar börn eldast
Í dag eru liðin tvö ár og ég er svo þakklát fyrir að hafa hlustað á drenginn minn. Þó börnin eigi sín herbergi með leikföngum og nægu rými til að leika bæði ein og með vinum, þá velja þau yfirleitt að leika sér á leiksvæðinu - líka þegar vinirnir eru með.
Það er svo dýrmætt – bæði fyrir þau og okkur sem foreldra. Þegar vinir koma í heimsókn fer leikurinn oft fram á leiksvæðinu og þar fæ ég tækifæri til að fylgjast með samskiptum þeirra. Ég hangi ekki yfir börnunum heldur stússast ég í heimilisstörfunum í kringum þau eða sit á sófanum og slaka á. Ég hverf í bakgrunninn þannig að börnin eru þau sjálf.. Ég get fylgst með hvernig þau tala saman, leysa úr ágreiningi og tengjast. Ég sé vináttu kvikna og þróast. Stundum þarf líka að grípa inn í, oftast ekkert, en ég er nálægt ef eitthvað kemur upp.
Og ekki má gleyma því hvað þetta gerir fyrir tengslin mín við börnin mín og vini þeirra. Ég kynnist bekkjarfélögum þeirra og vinum á óformlegan og náttúrulegan hátt - í gegnum leikinn.
En leika eldri börn sér virkilega enn?
Já! Leikurinn breytist með aldrinum, en þörfin fyrir leik hverfur ekki. Eldri börn sækjast meira í samvinnu, byggingar, sköpun, hönnun og áskoranir. Kúlubrautir, segulkubbar, LEGO eru allt dæmi um leikföng sem höfðar til eldri barna – jafnvel allt fram á unglingsár.
Ég viðurkenni að ég efaðist aðeins um hvort 13 ára barn sem kom hér í heimsókn myndi finna eitthvað við sitt hæfi á leiksvæðinu – en segulkubbakúlubrautir virðast virka á alla aldurshópa!
Ekki regla – en reynsla sem ég vil deila
Ég er ekki að segja að allir þurfi að hafa leiksvæði í stofunni fyrir börnin sín. En ég vil deila því hvað það hefur gefið okkar fjölskyldu að halda í þetta sameiginlega leikrými – og hversu rétt reynist að hlusta á barnið mitt þegar hann bað um að fá að halda því.
Ef þú ert með eldri börn og ert að velta fyrir þér hvort leikur eigi enn heima á heimilinu – leyfðu þér að prófa!
Kannski þarftu bara lítinn stað með opnum efniviði sem börn geta notað til skapandi leiks. Kannski detta þau í leik sem kemur þér á óvart!