Leikið með klaka

leikboð skynjunarleikir uppskriftir Nov 03, 2021

 

Það getur verið gaman að leika með klaka og það er hægt að gera á ótal vegu. Hér ætla ég að segja frá nokkrum klakaleikjum sem ég hef boðið börnunum mínum upp á. Allt er þetta óskaplega einfalt í undirbúningi en þar sem klakkarnir þurfa tíma til að frjósa þarf vissulega að hugsa fyrir þessu tímanlega.

Það sem er líka skemmtilegt með klakaleiki er að það er auðvelt að eiga tilbúið leikboð í frysti í langan tíma sem má svo taka út hvenær sem hentar. 

 

Dúskaklakar

Ég hef útbúið dúskaklaka fyrir krakkana. Þá setti ég bara litla dúska og vatn í klakaform. Þegar ég bauð upp á leikinn setti ég litað vatn í einn plastkassa og bauð einnig upp á skálar, glös, píska, skeiðar, sprautur og dropateljara til að leika með. Það eina sem ég hefði viljað gera öðruvísi er að hafa fleiri klaka. Ég fyllti bara eitt klakaform en hefði viljað hafa alveg þrjú til fjögur og hafa fullt af klökum!

 

Eftir leikinn og sullið þurrkaði ég bara dúskana og þeir hafa svo verið notaðir aftur og aftur í allskyns leikjum.

 

 

Málað á klaka

Það getur verið gaman að mála á klaka. Eitt sinn útbjó ég stóran klaka með því að frysta vatn í litlum plastkassa. Ég setti síðan stóra klakkann í stærri plastkassa og með honum setti ég vatnsliti, pennsla og glas með smá vatni í. Það er allt önnur áferð og upplifun að lita á klaka. 

 

 

Málað með klökum

Talandi um að mála á klaka þá getur líka verið skemmtilegt að mála MEÐ klökum! Það er auðvitað líka mjög einfalt í framkvæmd að útbúa klakaliti en þeir þurfa vissulega tíma til að frjósa. Ég setti bara slatta af matarlit út í vatn sem ég setti í klakaform. Svo setti ég prik ofan í klakahólfin og inn í frysti. Klakalitir þorna bara eins og venjuleg vatnslitamálning svo það má alveg halda uppá listaverk sem eru gerð með klakalitum.

 

 

Frelsið dýrin úr klaka

Að lokum langar mig að sýna ykkur frá einu sem við gerum reglulega. Þá frysti ég nokkur leikfangadýr í einn stóran klaka eða jafnvel marga litla. Ég set bara vatn í stóran plastkasssa, nokkur leikfangadýr ofan í og inn í frysti.

 

 

Þegar ég býð uppá slíkan leik hef ég oft sat og vatn í brúsa. Oft lita ég vatnið aðeins til að gera leikinn enn skemmtilegri. Saltið hjálpar til við að bræða klakann. Þegar salti er stráð yfir klaka heyrast oft brak og brestir. Það kemur líka öðruvísi áferð á klaka sem salti hefur verið stráð yfir. Þar er mun grófari áferð en þar sem bara vatni hefur verið sprautað. 

 

 

Þetta eru bara fjórar leiðir til að leika með klaka en möguleikarnir eru auðvitað ótal fleiri! Ég mæli með einföldum og skemmtilegum klakaleikjum :)