Að velja leikföng eftir aldri og þroska

Mar 22, 2023

Leikur er mikilvægur hluti af barnæskunni og það er í gegnum leik sem börn þroskast og læra. Sá efniviður sem börn hafa í leik hefur áhrif á þroska þeirra og því er gagnlegt að vanda valið þegar kemur að leikföngum. Mig langar því að nefna mín topp þrjú leikföng frá Regnboganum fyrir hvert aldursár í von um að það hjálpi ykkur að velja góðan efnivið fyrir leik barnanna ykkar.

 

Ungbörn

Það á sér stað gríðarlega mikill þroski fyrsta æviárið. Börn koma inn í þennan heim gjörsamlega ósjálfbjarga en í lok fyrsta ársins eru þau farin að kanna umhverfið af miklum áhuga. Sum þeirra eru jafnvel farin að hlaupa um!

Klifurboginn nýtist á ótal vegu og er hægt að nota strax frá fæðingu. Fyrst um sinn getur verið notalegt fyrir börn að liggja á mjúkum púða og vagga í klifurboganum. Klifurboginn nýtist líka vel sem leikgrind. Þá geta börn legið undir boganum og hægt er að hengja eitthvað spennandi fyrir þau til að horfa á og grípa í.

Þegar líður á fyrsta árið fara börn að vilja toga sig upp og æfa sig að standa. Þá kemur klifurboginn sterkur inn. Hann nýtist síðan í mörg ár því börn geta klifrað í honum, ruggað honum, notað hann sem fótboltamark, sem helli og margt fleira! Þegar hann nýtist ekki lengur sem leikfang fyrir börnin er hægt að nota klifurbogann sem hliðarborð. Það eru því endalausir notkunarmöguleikar.Fyrstu árin í lífi barns er það að uppgötva hvernig heimurinn og tilveran virkar og gerir það fyrst og fremst í gegnum skynjun. Þess vegna eru leikföng sem efla skynfærin yfirleitt mjög vinsæl hjá yngstu kynslóðinni og eins efla þau þroska barna á góðan hátt. Skynjunarboltar eru dæmi um slík leikföng. Þegar börn eru farin að kanna umhverfi sitt með því að horfa í kringum sig og teygja sig í það sem er nálægt þeim er góður tími til að kynna þau fyrir skynjunarboltunum. Börnin sjá spegilmyndina sína í boltunum og þegar þeir hreyfast heyrist mismunandi hljóð úr þeim. Þegar börn eru farin að geta tekið boltana upp komast þau að því að boltarnir eru misþungir.

 

Algengt er að börn séu byrjuð að ganga meðfram fyrir eins árs aldur. Þá getur verið skemmtilegt fyrir þau að eignast gönguvagn sem hjálpar þeim að æfa fyrstu skrefin og að halda jafnvægi. Með gönguvagninum fylgja skemmtilegir og litríkir kubbar í allskyns formum.

Það sem er frábært við gönguvagninn frá Le Toy Van er að hægt er að stilla mótstöðuna á hjólunum og hversu stíf þau eru. Þannig er hægt að passa uppá að börn sem eru að taka sín allra fyrstu skref fari ekki of geist af stað.  

 


 

1 árs

Það hefur mikill þroski átt sér stað þegar barn er orðið eins árs gamalt og nú fer hefðbundnari leikur að vera sýnilegri. Börn byrja að stafla kubbum, keyra bíla og annast dúkkur. Börn eru enn að uppgötva lífið og tilveruna í gegnum skynfærin og því eru skynjunarleikföng enn mjög sniðug.

Góður grunnur á hvert leiksvæði er gott kubbasett. Þegar börn leika sér með kubba æfa þau samhæfingu handa og augna, þau þjálfa fínhreyfingar, rökhugsun og fleira. Viðarkubbar eru góðir fyrstu kubbar því ekki þarf að smella þeim saman og því auðveldara fyrir börn að raða þeim og stafla. Clever Up kubbasettið er dæmi um gott kubbasett sem getur nýst börnum í mörg, mörg ár. Ég mæli með að fara beint í stærsta settið en því fylgja skemmtilegar viðarkúlur sem eru nógu stórar til að vera öruggar fyrir yngstu kynslóðina.

Aðrir kubbar sem ég mæli með fyrir eins árs börnin eru skynjunarkubbar. Kubbar með litaðri filmu sem er skemmtilegt að horfa í gegnum, kubbar með perlum sem heyrist skemmtilega í, vatnskubbar með glimmeri og kubbar með lituðum sandi. Svo fjölbreytt og skemmtilegt fyrir skynfæri litla fólksins.

Ekki bara eru skynjunarkubbar skemmtilegir fyrir mismunandi skynjun heldur nýtast þeir líka vel í allskyns kubbabyggingar.

 

Stafl leikföng hafa alltaf verið vinsæl hjá börnum. Slík leikföng efla samhæfingu handa og augna, fínhreyfingu, rökhugsun og einbeitingu. Skemmtilegi staflgarðurinn frá Le Toy Van hefur níu mismunandi kubba sem hægt er að raða á þrjár stangir. Það er því hægt að raða kubbunum upp á fjölbreyttan hátt.
 

 


 

2 ára

Við tveggja ára aldur hefur hlutverkaleikur fengið enn meira gildi en áður þar sem börn leika eftir það sem þau upplifa og sjá í umhverfi sínu. Dúkkuleikur er ein leið fyrir börn að leika eftir það sem þau sjá og upplifa umönnunaraðila sína gera. Dúkkuleikur eflir félagsþroska barna, samkennd, ímyndunarafl, orðaforða, fínhreyfingar og margt fleira!

Hjá Regnboganum er einstaklega veglegt úrval af góðum dúkkum. Raunverulegar dúkkur í réttum líkamshlutföllum, dúkkur með ólíkan húðlit, hárlit og augnlit, mjúkar dúkkur, hlutlausar dúkkur og fleira til!

Á þessum aldri hafa börn náð ágætis tökum á fínhreyfingum en þurfa þó enn töluverða æfingu og þjálfun. Allskyns skemmtileg leikföng er hægt að fá til þess einmitt að æfa fínhreyfingar og um leið einbeitingu, samhæfingu og fleira. Það er til dæmis þræðingasett, pinnabretti og annað slíkt.

 

Þegar börn eru tveggja ára er tilvalið að bjóða þeim uppá allskyns lausamuni. Lausamunir eru opin leikföng eða efniviður sem má nota á ótal ólíka vegu. Það eru engar reglur um hvernig á að leika með lausamuni eða hver lokaútkoman á að vera. Lausamunum má raða, stafla, breyta, færa á milli, bera um, nota eina og sér eða með öðrum efnivið. Grapat leikföngin eru dæmi um fullkomna lausamuni sem nýtast í allskyns fjölbreytta leiki árum saman!

Sniðug sett fyrir tveggja ára eru til dæmis árstíðasettin því þau eru svo fjölbreytt. Í því eru mismunandi fígúrur, skálar, peningar og hringir.

 

Annað frábært Grapat sett fyrir tveggja ára og eldri er Lola settið. Á þessum aldri eru börn enn að æfa sig að byggja turna og þeim finnst gaman að setja hluti ofan í eitthvað. Settið nýtist svo í mörg ár því möguleikarnir eru óteljandi! (Athugið bara að í settinu eru smáhlutir sem þarf að taka úr fyrst um sinn fyrir yngstu börnin, ekki samt láta það stoppa þig í að fjárfesta í Lola settinu því það er svo margt hægt að gera með öllu hinu!)

 


 

3 ára

Við þriggja ára aldur hefur heilmikill þroski átt sér stað. Börn eru orðin öruggari í hreyfingum við þriggja ára aldur og fínhreyfingar hafa tekið miklum framförum. Það sést greinilega í kubbaleik barna því þau byggja stærra og meira og gera það af meira öryggi.

Kubbaleikur er gagnlegur fyrir börn á ótal vegu. Börn styrkja samhæfingu, efla rýmisgreind, fínhreyfingar, ímyndunarafl og sköpunargáfur. Þegar börn byggja úr kubbum æfa þau lausnamiðaða hugsun þegar þau sjá fyrir sér hvað þau vilja byggja og finna leiðir til að láta það ganga. En fyrst og fremst finnst börnum bara svo ótrúlega skemmtilegt að byggja úr kubbum!

Ef barnið á góða grunnkubba er skemmtilegt að bæta við fleiri og fjölbreyttari kubbum í safnið. Það gætu til dæmis verið eitthvað af fallegu Bauspiel kubbunum eins og gluggakubbarnir. Það er heilmikið úrval af sniðugum viðbótum við kubbaleikinn hjá Regnboganum. Ég mæli með að kíkja á það.

 

Síðustu ár hafa segulkubbar verið ótrúlega vinsælir og eru nú til á ansi mörgum barnaheimilum. Það er líka engin furða, segulkubbar eru frábær leikföng sem er auðvelt fyrir börn að byggja úr. Dásemdin við segulkkubba er að það er auðvelt að bæta við í safnið með tíð og tíma.

 

Ekki bara hefur kubbaleikur barna tekið miklum framförum við þriggja ára aldur heldur er ímyndunaraflið í fullu fjöri og nú hafa börn meiri orðaforða til að koma hugmyndum sínum og sögum í framkvæmd. Börn fara því enn lengra inn í hlutverka- og ímyndunarleiki en áður og nú eru þau ekki bara að leika eftir það sem þau sjá og upplifa í kringum sig heldur eru þau sjálf farin að skapa sína eigin ímyndaða veröld. Þess vegna eru leikföng fyrir hlutverkaleiki frábær fyrir þennan aldur. Eldhúsdót, verkfæri, lækndót og fleira sniðugt er líklegt til að vera vinsælt hjá litla fólkinu.

 


 

4 ára

Leikur fjögurra ára barna er í miklu uppáhaldi hjá mér! Þau eru orðin svo klár og sjálfstæð. Þau hafa ótal sniðugar og skemmtilegar hugmyndir sem þau eiga auðveldara með að koma sjálf í framkvæmd. Fjögurra ára börn eru lærdómsfús og óhrædd við að prófa sig áfram með leikföng og efnivið í allskyns útfærslum.

Abel kubbarnir bjóða uppá allskyns sniðugan og skapandi leik. Með þeim er auðvelt að gera kúlubrautir, það má nota þá til að gera girðingar fyrir dýr, brýr yfir götur, veggi og svo ótal margt fleira. Það er líka skemmtilegt að nota þá til að gera allskyns myndir, form og jafnvel mandölur.

 

Talandi um mandölur þá eru Grapat mandölu settin fullkomnir lausamunir sem hægt er að nota á ótal vegu! Mandölu settin eru ekki bara til að gera mandölur, mynstur eða aðrar myndir heldur er líka hægt að nota þau í allskyns ímyndunarleiki. Til dæmis sem möl í gröfuleik eða sem mat í eldhúsleik. Grapat mandölu settin eru líka frábær í allskyns stærðfræðiæfingar til dæmis til að átta sig á tölugildi, æfa samlagningu, frádrátt og fleira. Endalausir möguleikar!

 

Ocamora regnbogarnir er gott dæmi um opinn efnivið og geta komið sterkt inn hjá fjögurra ára. Talað er um opinn efnvið þegar leikföng hafa ekki fyrirfram ákveðinn tilgang eða hlutverk. Möguleikarnir eru óteljandi og hugmyndaflug og ímyndunarafl barnsins fá svo sannarlega að njóta sín.


 

5 ára

Fimm ára börn eru algerir snillingar! Þau hafa dásamlegt hugmyndaflug og ímyndunarleikir þeirra oft ansi skrautlegir. Þau hafa aukna þolinmæði og þrautsegju þannig að þau ráða við flóknari verkefni en áður. Nú eiga börn auðveldara með að fylgja fyrirmælum og reglum og því hafa þau oft gaman að því að fylgja leiðbeiningum þegar þau leika sér.

Nú ættu börn til dæmis að vera komin með færni til að gera einfaldar kúlubrautir. Það er ansi flókið að byggja kúlubrautir því það er svo ótal margt sem þarf að huga að. Er nægur halli fyrir kúluna, er kannski of mikill halli? Eru beygjurnar of skapar, er nægur stuðningur við brautina og svona mætti lengi telja.

Segulkubba kúlubrautir hafa slegið í gegn síðust ár enda engin furða – þær eru stórskemmtilegar fyrir börn og fullorðna!

 

 

Fleira sniðugt í segulkubbadeildinni eru Magbrix segulkubbar sem hægt er að festa legokubba og duplokubba á. Þessir segulkubbar passa með öllum helstu segulkubbamerkjum á markaðnum í dag, til dæmis Playmags og Magblox.

 

Formkubbarnir eru skemmtilegir fyrir börn sem vilja æfa sig að gera mynstur eða myndir eftir leiðbeiningum. Það er líka skemmtilegt að skapa sitt eigið mynstur eða myndir.

 


 

6 ára og eldri

Þegar börn byrja í grunnskóla gefst oft minni tími fyrir frjálsan leik. Leikur er þó eftir sem áður ótrúlega mikilvægur fyrir þroska og velferð barna og því mikilvægt að passa uppá tækifæri eldri barna til að leika sér. Börn þurfa enn útrás fyrir hugmyndaflugið og sköpunargáfuna. Eldri börn velja sér oft kerfjandi verkefni sem reynir á hugann og því gagnlegt að þau hafi aðgang að leikföngum sem styðja við það.

Það er til svo ótrúlega mikið úrval af virkilega fallegum, vönduðum og sérstökum kubbum. Það er því skemmtilegt að bæta við nýjum og öðruvísi kubbum í safnið þegar börn verða eldri. X kubbarnir frá Bauspiel eru dæmi um öðruvísi kubba sem hafa ótrúlega möguleika til sköpunar. Kubbana má nota með öðrum kubbum eða eina og sér.

Kubbar sem hannaðir eru til að passa með X kubbunum eru til dæmis gegnsæju teningarnir frá Bauspiel. Gegnsæju teningarnir eru ekki bara skemmtilegir með X kubbunum heldur má nota þá til að læra litina, flokka, búa til mynstur og fleira. 

Cuboro kúlubrautin er frábært leikfang fyrir klóka krakka! Það er áskorun að byggja kúlubraut sem gengur upp og það er einmitt það sem getur haldið athygli eldri barna í leik. Öll settin frá Cuboro ganga saman og alltaf hægt að bæta í safnið til að geta gert stærri og flóknari kúlubrautir.

 

Púsl eru skemmtileg fyrir allan aldur! Sérstaklega ef myndin sem skal púsla höfðar til manns. Hjá Regnboganum fást púsl með skemmtilegum myndum sem hafa einstaka lögun. Ekki bara það heldur fylgir púslinu bæklingur með fræðandi upplýsingum um dýrið sem skal púslast.


 

Leikföng eru ekki bara keypt til að gleðja börn og hafa ofan af fyrir þeim. Leikföng eru verkfæri barna til að efla þroska og styðja við allskyns lærdóm. Þess vegna er gagnlegt að vita aðeins um þroskaferli barna og hvernig leikföng henta hverju sinni.

Flest leikföngin sem ég hef nefnt í þessum pósti eru þess eðlis að hægt er að nota þau á ólíka vegu. Þau nýtast börnum því árum saman þrátt fyrir aukinn aldur og þroska. Börnin einfaldlega finna nýja leið til að nota leikföngin. 

Öll þau leikföng sem hér eru nefnd fást hjá Regnboganum. Þar finnurðu einstaklega veglegt úrval af gæða leikföngum. Ég hvet þig til að kíkja í verslun þeirra eða skoða úrvalið í vefverslun.

 

Bestu kveðjur,

Sigrún Yrja

 

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Regnbogann verslun.