Lausamunir í skynjunarleik

Sep 21, 2023

 

Síðustu póstar hafa fjallað um lausamuni og sú umfjöllun heldur hér áfram en nú beinum við sjónum að lausamunum í skynjunarleik.

Skynjunarleikir eru hverskyns afþreying og leikir sem örva skilningarvitin sérstaklega.

Í gegnum tíðina hef ég oft boðið börnunum mínum uppá skynjunarleiki. Það gerði ég fyrst og fremst af því að það voru stundirnar þar sem börnin léku sér lengi sjálfstætt. Þegar þau voru lítil þá gerði ég það gjarnan að sitja hjá þeim, fylgjast með þeim, slakaði á og hlustaði á hljóðbók á meðan. Stundum nýtti ég líka tímann í að sinna heimilisverkum nálægt börnunum þannig að ég gæti samt haft eftirlit með þeim.

Þegar við setjum upp skynjunarleiki er gott að hafa þrjú atriði til staðar. Við byrjum með einhverskonar grunn. Grunnur í skynjunarleikjum er annað hvort blautur (vatn, froða, slím) eða þurr (hrísgrjón, kjúklingabaunir, hafrar). Næsta skref er að finna til áhöld til að nota með grunninum sem var valinn. Það getur verið skeiðar, tangir, ausur, skálar eða annað slíkt. Að lokum er gott að velja einhverskonar lausamuni.

Nýlega valdi ég Grapat Lola sem lausamuni og það sló algerlega í gegn! Þá hafði ég þurrar kjúklingabaunir sem grunn, tvær litlar tréskeiðar og eina töng sem áhöld og Grapat Lola sem lausamuni. Krakkarnir (næstum 6 ára og rúmlega 8 ára) léku sér saman í tæplega 90 mínútur! Það var langt síðan ég hafði boðið uppá einhverskonar skynjunarleik og þau báðu um að fá slíkt leikboð fljótlega aftur. 

 

Aðrir lausamunir sem geta verið skemmtilegir í skynjunarleikjum er:

  • Kubbar
  • Könglar
  • Korktappar
  • Skálar
  • Perlur
  • Dúskar
  • Leikfangadýr
  • Litlir bílar
  • Skeljar
  • Laufblöð
  • Tölur

 

Bestu kveðjur og gleðilegan leik!

Sigrún Yrja