Lausamunir í listastarfi

Oct 05, 2023

Þá höldum við áfram umfjöllun um lausamuni en að þessu sinni eru það lausamunir í listastarfi. 

Lausamunir eru eitthvað sem börn geta fært á milli staða, borið með sér í lófanum, í vasanum eða í töskum. Eitthvað sem þau geta staflað eða raðað. Eitthvað sem þau geta notað eitt og sér eða með öðrum efnivið. Það eru engar reglur um hvernig á að nota lausamuni heldur er það undir barninu sjálfu og ímyndunarafli þess komið hvernig leikurinn þróast. 

Lausamuni má nota í allskyns leikjum, útiveru og listsköpun. Það að nota óhefðbundinn áhöld þegar verið er að mála og skapa aðra list getur verið skemmtilegt að prófa. Næst þegar barnið þitt ætlar að mála hvet ég þig til að finna eitthvað annað sem er til á heimilinu en pensla til að mála með.

Þú gætir til dæmis notað dúska, pípuhreinsa, korktappa, klemmur, gaffla, tómar klósettrúllur og annað sem þú finnur til að mála með. Áferðin og upplifunin verður allt önnur en þegar málað er með pennsli!

Svo má líka mála eða lita beint á lausamunina. Til dæmis ef þið eruð með tómar klósettpappírsrúllur eða korktappa er skemmtilegt að lita það eða mála. Svo má nota aðra lausamuni til að festa á og skreyta enn frekar. Eins og að setja fjaðrir, skeljar og annað skraut á. Möguleikarnir eru endalausir!

Það getur líka verið skemmtilegt að nota lausamuni til að skapa annars konar list en myndlist. Þannig má til dæmis skapa fallega list með litríkum lausamunum. Skemmtilegt fyrir bæði börn og fullorðna!

 

 

Það er svo auðvelt að gera listastarf öðruvísi og óhefðbundið. Við megum ekki festast bara í að mála mynd á blað með pennsli. Oft eru börnin sjálf sem koma með bestu hugmyndirnar ef við bara leyfum þeim og þeirra hugmyndum að njóta sín. 

 

Bestu kveðjur og gleðilegan leik!

Sigrún Yrja