Þroskaferli barna í gegnum kubbaleiki

leikföng leikur og þroski Oct 19, 2023

 

Kubbaleikur, eins og leikur almennt, er svo miklu meira en bara afþreying fyrir börn. Kubbaleikir hafa jákvæð áhrif á alhliða þroska barna!

Kubbaleikir efla:

 • Grófhreyfingar
 • Fínhreyfingar
 • Samhæfingu handa og augna
 • Málþroska
 • Stærðfræðiskilning
 • Athygli
 • Einbeitingu
 • Þrautsegju
 • Seiglu
 • Gagnrýna hugsun
 • Lausnamiðað nálgun

 

Það hvernig börn leika með kubba er ekki tilviljanakennt heldur er það línulegt ferli hvernig sá leikur þróast. Fræðin um þróun kubbaleikja tilgreina sjö stig kubbaleikja. En mig langar að byrja á að nefna það sem ég kalla forstig kubbaleikja. Fyrstu kynni barna af kubbum á sér oft stað þegar þau eru mjög ung. Áður en þau hafa þroska og getu til að byggja úr kubbum.

Forstig kubbaleikja – Tengist fyrst og fremst skynjun ungra barna á kubbum. Við getum séð börn setja kubba í munninn til að kanna þá. Þau lemja kubbum saman eða lemja þeim í gólfið. Þá heyra þau hljóð og finna hvernig hvernig högg kemur á kubbinn eða kubbana þegar þeim er lamið í eitthvað.

Fyrsta stigið – Þegar börn eru farin á ferðina taka þau gjarnan kubba með sér. Þau bera kubbana um heimilið, færa þá frá einum stað til annars, fylla ílát með kubbum og sturta þeim aftur úr. Það getur verið mjög spennandi að rústa því sem aðrir eru að byggja.

Annað stigið - Hér kemur fram fyrsti vísir að því að börn byggi eitthvað úr kubbum. Börn raða kubbum í línur eftir gólfinu eða stafla þeim upp í turna.

Þriðja stigið - Börn tengja saman tvo kubba með þeim þriðja þannig að úr verður brú.

Fjórða stigið - börn byrja að raða kubbum þannig að þeir afmarki ákveðin svæði eða þau búa til girðingar úr kubbum utan um fólk eða dýr, eða jafnvel utan um sig sjálf.

Fimmta stigið - börn búa til samhverfar byggingar eða byrja að æfa sig að gera mynstur úr kubbunum.

Sjötta stigið - börn hafa orð á því sem þau eru að byggja á meðan eða eftir að þau eru búin með bygginguna.

Sjöunda stigið - Þegar hér er komið við sögu geta börn hugsað það fyrirfram hvernig bygginu þau ætla að gera og hvernig. Börn hafa getu og færni til að raunverulega hrinda áætlunum sínum í framkvæmd.

 

Þróun kubbaleikja er línulegt ferli. Það þýðir að börn þurfa að hafa náð góðri færni í einu skrefi áður en þau fikra sig áfram í það næsta. Börn geta verið mislengi í hverju skrefi fyrir sig. Allt frá einum degi upp í nokkra mánuði.

Kubbar eru einstaklega góð leikföng sem ættu að vera aðgengilegir á öllum leiksvæðum. 

 

Bestu kveðjur og gleðilegan leik!

Sigrún Yrja