Kennsluleikföngin frá Montessori.is

Nov 10, 2021

  

Það er vísindalega sannað að börn þurfa aðeins 10-20 endurtekningar til að öðlast nýja færni eða þekkingu sé það gert í gegnum leik. Annars þarf um það bil 400 endurtekningar. Við getum eflaust öll tengt við að það er skemmtilegra og auðveldara að vinna að einhverju og læra eitthvað ef okkur finnst það skemmtilegt og áhugavert.

Ég hef mikla trú á frjálsum leik og að búa börnum þannig umhverfi að þau geti leikið sér á eigin forsendum. Þegar börn ákveða sjálf hvað þau vilja leika með, í hverju þau vilja æfa sig og hvað þau vilja læra eflir það sjálfstraust og sjálfstæði. Það gladdi því móðurhjartað þegar ég gat sett upp fallegt og hvetjandi lærdómssvæði á leiksvæði barnanna minna með kennsluleikföngum frá Montessori.is

 

 

Kennsluleikföngin hjálpa börnum að efla fínhreyfingar
og æfa stærðfræðihugsun, skrift og lestur

 

 


 

Forskriftarbrettin hjálpa börnum að æfa fyrstu línurnar sem þau þurfa að hafa gott vald á þegar þau byrja að skrifa. Börn geta æft sig að rekja eftir línunum með fingrunum eða með sérstakri rakningarstöng sem fylgir með. Rakningarstöngin er hönnuð þannig að hún líkist blýanti sem þjáflar blýantsgripið.  

 

Brettin koma tvö saman og á hvoru bretti eru mismunandi línur báðu megin. Annað brettið býður börnum að æfa sig að draga beinar línur lóðrétt og lárétt ásamt skásettum línum. Hitt brettið hefur bogadregnar og bylgjóttar línur.

 

 


 

Stafrófsbrettið sem Montessori.is hefur látið framleiða sérstaklega fyrir íslenskan markað er eitthvað sem mig hefur langað í fyrir börnin mín í nokkur ár! Það var því mikil gleði þegar ég frétti að nú loksins væri hægt að fá bretti með íslenska stafrófinu. Öðru megin má finna hástafina og hinu megin lágstafina. Brettið nýtist til að læra stafina, stafrófið og að æfa sig að skrifa stafina.

 

 

Þegar við eignuðumst stafrófsbrettið var drengurinn minn (6 ára) búinn að læra alla stafina, kunni að lesa og gat skrifað. Ég átti því ekki endilega von á að hann myndi nota brettið mikið. Það kom mér því skemmtilega á óvart að hann notar það eiginlega meira en litla konan sem er að verða 4 ára. Hann grípur oft í brettið og æfir sig að segja hljóð stafanna og hvað þeir heita. Hann er mjög áhugasamur núna um að læra stafrófið og notar stafrófsbrettið mikið til þess að æfa sig. Þrátt fyrir að kunna að skrifa alla stafina og hafa greiðan aðgang að pappír og blýöntum þá notar hann oft brettið til að æfa sig.

 

 

Stafrófsbrettið er því frábær efniviður fyrir börn sem eru að læra stafina og/eða eru að hefja grunnskólagöngu sína. Brettið er frábær leið til að æfa fínhreyfingar og æfa vöðvaminni barna þegar kemur að skrift.

 


 

Tölubrettið hjálpar börnum að læra að þekkja tölur og talnaröð frá einum upp í tíu. Eins og með forskriftarbrettin og stafrófsbrettin geta börn æft sig að skrifa tölurnar með fingrunum eða sérstakri rakningarstöng sem fylgir með og æfir blýantsgripið. Börn geta æft sig að þekkja talnagildi tölustafanna með því að nota lausamuni og setja viðeigandi fjölda hjá réttum tölustaf.

 

 

Á bakhlið talnabrettisins eru tíu rammar sem má nota á ýmsa vegu. Börn geta æft sig að setja einn hlut á hvern reit eða einn hlut í fyrsta reitinn, tvo í næsta og svo koll af kolli. Það má einnig nota reitina til að búa til ýmis mynstur og hvað annað sem börnum dettur sniðugt í hug að gera.

 

 


 

Tölukubbarnir eru algerlega frábærir til að hjálpa börnum að öðlast skilning á tölum og talnagildi þeirra. Hver kubbur hefur einn tölustaf og jafn margar holur og tölustafurinn segir til um. Kubbarnir eru misstórir allt eftir talnagildi hvers kubbs. Það er því mjög áþreifanleg leið fyrir börn að læra um tölustafi og talnagildi þegar þau nota talnakubbana.

 

 

Börnin geta raðað kubbunum í stærðarröð og sjá þá tölustafina frá einum og upp í tíu. Börn geta æft sig að rekja tölustafina á kubbunum og setja jafn marga lausamuni í holurnar og tölustafurinn segir til um.

 

 


 

Regnboginn nýtist á ýmsa vegu. Hann má nota til að æfa fínhreyfingar með því að setja litla lausamuni í holurnar. Þannig þjálfast vöðvar í höndum og úlnliðum sem hjálpar börnum að hafa gott vald á skriffærum síðar meir. Regnboginn nýtist einnig sem talningaborð því hann hefur tvær raðir og í hverri röð eru tíu holur. Þannig má æfa sig að telja, telja í pörum, leggja saman og fleira.

 

 


 

Öll þessi dásamlegu kennsluleikföng má nota á ýmsa vegu. Það má nota brettin með ýmsum þurrmat eins og þurrum hrísgrjónum eða kjúklingabaunum og blanda þannig saman skynjunarleiki og lærdóm. Það má nota leir með brettunum og æfa sig að leira tölustafi, kúlur, lengjur eða bókstafi. Það má leggja blað yfir brettin og nota vaxliti til að rekja formin. Möguleikarnir eru ótal margir!

 

  

 

Hjá Montessori.is færðu ekki bara þessi frábæru viðarbretti sem stuðla að fjölbreyttu námi heldur líka ýmis leikföng fyrir ung börn sem ríma vel við hugmyndafræði Maríu Montessori. 

Ég mæli með að fylgjast vel með því á næstu vikum koma enn fleiri leikföng í sölu hjá versluninni!

 

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Montessori.is