Heimagerður leir
Aug 07, 2021Vissir þú að það er ótrúlega einfalt að skella í heimagerðan leir?
Leir er skemmtilegur fyrir allan aldur og með því að gera heimagerðan leir er óhætt að leyfa litlu krílunum að taka þátt í gleðinni því það eru engin skaðleg efni í leirnum. Leirinn er að vísu stútfullur af salti svo hann er ekki góður til átu en það kemur ekki að sök þó að það fari örlítið í litla munna.
Á okkar heimili er leir oft notaður í allskyns leiki. Leir hefur verið notaður sem gras í sveitaleik, sem mold í gröfuleik, sem sjór þegar verið er að leika með sjávardýr. Möguleikarnir eru óteljandi!
Að búa til leir getur verið mjög skemmtileg afþreying og börnin geta tekið þátt í að búa til leirinn. Það eina sem þarf að passa er að í uppskriftinni er notað sjóðandi heitt vatn og ég mæli með að fullorðnir sjái um þann part.
Heimagerður leir – uppskrift
1 bolli hveiti
½ bolli salt
2 msk olía
2 msk sítrónusafi (ekki sítrónudropar!)
1 bolli sjóðandi heitt vatn
1 tsk matarlitur
Blandaðu saman hveiti og salti í skál. Bættu sítrónusafa og olíu út í. Settu matarlitinn út í sjóðandi heitt vatnið og helltu svo í skálina. Hrærið lauslega saman og hellið síðan öllu úr skálinni á borðplötu. Blandan er mjög heit fyrst en það skiptir máli að byrja að hnoða eins fljótt og maður treystir sér til og hnoða stöðugt í nokkrar mínútur. Þannig blandast leirinn best og maður fær frábærlega mjúkan og góðan leir.
Þá er leirinn bara tilbúinn! En ef þér finnst leirinn vera of blautur þegar þú hnoðar hann geturðu bætt smá hveiti saman við þar til þér finnst áferðin vera orðin góð.
Heimagerður leir helst mjúkur og góður í nokkrar vikur eða jafnvel mánuði sé hann geymdur í loftþéttum umbúðum á köldum þurrum stað.
Það er ekkert mál að gera leir þó þú eigir ekki sítrónusafa. Eini munurinn er að leirinn geymist ekki jafn lengi þegar maður sleppir sítrónusafanum en hann er alveg jafn dásamlega skemmtilegur og mjúkur þegar maður gerir hann.
Góða skemmtun að leira!