Hefur barnið tíma til að leika sér?

frjáls leikur sjálfstæður leikur Aug 19, 2021

Haustið er minn tími – ég upplifi alltaf að það sé nýtt upphaf og tækifæri til breytinga. Þegar nýtt skólaár hefst finnst mér svo gott að íhuga hvernig ég vil hafa rútínu vetrarins. Þá horfi ég til þess hvað er á dagskrá hjá fjölskyldunni – hver er á æfingu hvenær, hvenær erum við búin að vinna og slíkt. Einnig horfi ég til þess hvað hvað gekk vel í fyrra og hvað þarf mögulega að breyta.

Að skapa góða rútínu getur einfaldað lífið til muna. Allir foreldrar hafa heyrt hvað rútína er mikilvæg fyrir börn. En rútína er ekki bara gagnleg fyrir börn heldur getur góð rútína verið gagnleg fyrir fólk á öllum aldri. Að gefa sér tíma til að setja niður á blað þau verkefni sem þarf að sinna á hverjum degi eða í hverri viku og ákveða hver sinnir hverju og hvernær minnkar andlegt álag vegna heimilisins.

Síðustu daga höfum við hjónin mikið rætt um hvernig við viljum hafa rútínuna í vetur. Það eru ákveðnir utanaðkomandi þættir sem við höfum ekki stjórn á eins og vinnutími og íþróttaæfingar barnanna. En tíminn utan þess er það sem við stjórnum og það er tíminn sem ég vil nýta sem best. Ekki endilega nýta hann til að gera sem mest og vera alltaf á fullu. Þvert á móti vil ég nýta tímann þannig að ég þurfi að verja sem minnstum tíma í nauðsynleg verkefni eins og að þvo þvott, þrífa gólf og önnur heimilisverk. Ég vil hafa sem allra mestan tíma í að bara vera – hanga, leika, læra og vera saman við fjölskyldan.

Við viljum lifa streitulitlu lífi með hæglæti að leiðarljósi. Ég vil að börnin mín hafi mikinn frjálsan tíma í sinni dagskrá. Síðustu áratugi hefur tækifærum barna til frjáls leiks farið minnkandi. Þar spilar inn í lengri viðvera barna í skólum og frístund og aukið íþrótta- og tómstundastarf barna. Ekki halda að ég sé á móti íþrótta- og tómstundastarfi. Alls ekki! En það má samt ekki gleyma mikilvægi frjálsa leiksins. Á sama tíma og tækifærum barna til frjáls leiks hefur farið minnkandi hefur nefnilega andlegri heilsu ungmenna hrakað. Það er það sem ég hef áhyggjur af!

Við höfum öll þörf fyrir frelsi. Við þurfum öll að fá að upplifa að við höfum einhverja stjórn á okkar eigin lífi. Hjá börnum er frjálsi leikurinn einmitt það tækifæri. Á íþróttaæfingum þarf að fylgja fyrirmælum og ákveðnu plani. Í skólanum þarf að fylgja fyrirmælum og ákveðnu plani. Í hinum og þessum tómstundum þarf að fylgja fyrirmælum og ákveðnu plani.

En þegar börn leika sér frjálst þá eru þau við stjörnvölin. Þau ákveða hvað þau ætla að leika og hvernig. Þau ráða hraða leiksins og framvindunni. Þau ráða hvort þau vilji hvíla sig og hlusta á sögu eða byggja einhverja ævintýraveröld úr kubbum.

Í grunnskólanum þarf að ná ákveðnum markmiðum fyrir ákveðinn tíma. Þau þurfa að læra að lesa, þau þurfa að lesa nógu hratt, þau þurfa að kunna að skrifa og þau þurfa að kunna að reikna. Börn þurfa að sitja í sætunum sínum, þau þurfa að fylgjast með og þau þurfa að fylgja ákveðinni stundaskrá. Á leikskólum þarf líka að fylgja skipulagi og fyrirmælum. Það þarf að sitja og hlusta, fylgjast með og taka þátt.

En í leiknum eru engin ákveðin markmið sem þarf að ná. Í leiknum er hægt að sitja og horfa út í loftið í korter ef maður dettur í dagdrauma. Í leiknum má fara úr einu í annað án þess að það trufli aðra. Í frjálsa leiknum eru engar reglur sem þarf að fylgja. Þú mátt vera flóðhestur sem býr á norðurpólnum þess vegna! Í leiknum fær barnið tækifæri til að melta og vinna úr því sem gerðist þann daginn. Í leiknum fær barnið tækifæri til að íhuga það sem það lærði þann daginn. Í leiknum fær barnið tækifæri til að hugsa um og tjá sig um málefni sem það á kannski erfitt með að skilja.

Þess vegna hvet ég alla til að huga að því hversu mikinn frjálsan tíma börn fá í daglegu rútínunni. Tími fyrir frjálsan leik stuðlar að aukinni vellíðan og velferð barna á öllum aldri.


Ég veit að hversdagurinn getur verið ansi annasamur hjá barnafjölskyldum. Það eru ótal verkefni sem þarf að sinna og tíminn ekkert alltaf rosalega mikill eftir vinnu. Ég veit að það eru einhverjir foreldrar sem lesa þessa færslu og hugsa "ok, gott og blessað. Börn hafa gott af því að leika sér. En raunveruleikinn er sá að barnið mitt leikur sér ekki sjálft og ég hef engan tíma til að setjast niður með því á virku dögunum ef það á að komast kvöldmatur á borðið og hrein föt á heimilisfólkið." 

Ég skil þig! Ef það gengur ekki upp á virku dögunum, skoðaðu þá helgarnar. Er einhver stund um helgar sem er hægt að helga frjálsa leiknum? Má byrja daginn á frjálsum leik eða er stund eftir hádegið? Þú þekkir best rútínuna og skipulagið í þinni fjölskyldu. Ekki miða við það sem aðrir gera. Skoðaðu hvað hentar hjá ykkur. 

Ef það gefst ekki tækifæri fyrir frjálsan leik á hverjum degi þá er samt gagnlegt að gefa tíma fyrir hann um helgar! Eitthvað er betra en ekkert. 

Ef þú vilt aðstoð við að stuðla að sjálfstæðum leik þannig að barnið þitt geti leikið sér sjálft á meðan þú sinnir heimilinu þá færðu góðar upplýsingar í rafbókinni Lykillinn að sjálfstæðum leik