Hádegishvíld

Sep 22, 2022

 

Saknarðu þess stundum þegar börnin þín tóku lúr á daginn? Stund þar sem þú gast hvílt þig svo þú værir betur í stakk búin að sinna börnum og heimili restina af deginum?

Börnin mín eru löngu hætt að sofa á daginn en það er alltaf hádegishvíld hjá okkur þegar við erum í helgarfríi, jólafríi, páskafríi, sumarfríi eða hvað það nú er sem þýðir að börnin eru ekki í skóla.

Það er samt ekki þannig að hvíldin byrji alltaf á nákvæmlega sama tíma. Það getur verið aðeins breytilegt eftir því sem við erum að gera og auðvitað koma dagar þar sem við erum á ferðinni og það er engin hvíld. En almennt þá fara börnin í hvíld einhverntíman um og eftir hádegi. Þá fara þau í herbergin sín, hlusta á sögu og dunda sér eitthvað. Ég legg áherslu á það hér hjá okkur að börnin séu ekki saman í hvíldinni. Við búum í sveit svo þau verja miklum tíma saman enda ekki hlaupið að því að fara út að hitta vini. Ég vil því að þau fái líka hvíld frá hvert öðru í smá stund á hverjum degi sem við erum í fríi. Það hjálpar þeim síðan að leika saman síðar.

 

 

Það hefur samt ekki alltaf verið þannig hjá okkur að við höfum hádegishvíld. Við byrjuðum á því fyrir um þremur árum. Þá höfðum við þann háttinn á að þegar litla konan lagði sig í hádeginu þá fékk stóri bróðir að horfa á sjónvarp. Það passaði ágætlega á þeim tíma. Ég vildi bíða sem lengst með að kynna litlu konuna fyrir sjónvarpi svo það hentaði að strákurinn okkar fengi að horfa þegar hún var sofandi. Á þessum tíma var hann fjögurra ára og horfði almennt bara um helgar eða í fríum.

Ég vildi síðan breyta þessu fyrirkomulagi svo ég ákvað að prófa að koma á hádegishvíld á heimilinu án sjónvarpsins. Það gekk fáránlega vel! Einn laugardagsmorguninn sagði ég stráknum mínum að þann daginn myndi hann ekki horfa á sjónvarp þegar systir hans myndi leggja sig. Í staðin myndi hann hlusta á sögu í herberginu sínu og hvíla sig. Síðan gætu þau horft á sjónvarpið saman seinnipartinn (þá var litla konan tæplega 2 ára). Þannig var hann ekki að missa af neinu og hann bara fór í hvíldina sína í hádeginu. Eins og ég segi, það var eins og í lygasögu hvað gekk vel að koma á hvíld hjá honum.

 

 

Þegar litla konan hætti síðan að leggja sig á daginn þá fannst henni ekkert eðlilegra en að fara samt í hvíld. Hún var tæplega þriggja ára þegar hún hætti að leggja sig á daginn sem var fyrr en ég var að vona. Hún entist í um 10 mínútur sjálf í hvíld fyrst um sinn en það fór ansi hratt upp í hálftíma. Það tók nokkra mánuði fyrir bæði börnin að byggja upp úthald að vera ein í herberginu sínu að hlusta á sögu og dunda sér. Í dag erum við að miða við klukkustundar hvíld. Það er samt ekki þannig að börnin megi ekki koma fram ef þau þurfa á okkur að halda og það koma alveg dagar inn á milli þar sem er ansi mikið ráp. En almennt þá gengur þetta virkilega vel hjá okkur og ég sé hvað hvíldin gerir öllum í fjölskyldunni gott!

 

 

Það er misjafnt hvað við foreldrarnir gerum í hvíldinni. Stundum leggjum við okkur, stundum vinnum við, stundum sinnum við heimili, stundum horfum við á sjónvarpið. En ég get sagt ykkur að það er virkilega gott að eiga þennan klukkutíma um miðbik dags í að gera það sem mig langar helst.

Mæli virkilega með að þið komið á hádegishvíld á ykkar heimili!

- Sigrún Yrja -