Froða

skynjunarleikir uppskriftir Aug 07, 2021
 

Ég kemst varla yfir það hvað froða er mikil snilld í skynjunarleik! Hún er svo létt og dúnkennd, litrík og falleg Það er svo góð lykt af henni og það er svo gaman að blanda henni út í vatn og sjá hvernig hún breytist. Að leika með froðu örvar líka ólík skynfæri, svosem sjón, lykt og snertingu.

Það skemmir ekki fyrir hvað er einfalt og fljótlegt að búa til fullan bakka af unaðslegri froðu. Afþreying sem er einföld og fljótleg í framkvæmd og hefur ofan af fyrir börnunum í langa stund finnst mér allra best! Þetta er akkúrat þannig afþreying!

Börnin mín fá ekki nóg af því að leika með froðu og það er alveg ógleymanlegt hvað strákurinn minn var glaður í fyrsta skipti þegar ég bauð uppá froðuleik. Þá hafði ég sett froðuleikinn upp í leikborðinu okkar og hafði það inni á baðherbergi, því ég þekki nú mín börn og vissi að það yrði eitthvað sull sem fylgdi leiknum. Strákurinn (4 ára) var svo sæll með þetta að hann spurði hvort við gætum ekki haft leikborðið inni á baðherbergi í marga daga. Svo spurði hann hvort við gætum gert þetta um sumarið, og um jólin, og á afmælinu sínu… Ekkert lítið sem þetta sló í gegn! Það var nú ekkert minni gleði hjá mömmunni þegar hún sá hvað þetta vakti mikla lukku hjá börnunum, þau léku sér saman í langan tíma og ég var enga stund að græja nýjan skammt af froðu þegar búið var að blanda allri froðunni við vatnið.

 

Froða – Uppskrift

2 msk sápa
2 msk kartöflumjöl - má sleppa
4 msk volgt vatn
Matarlitur – nokkrir dropar

 

Allt sett saman í hrærivél og blandað vel saman. Einnig er hægt að nota handþeytara og jafnvel blandara. Það er ekkert mál að gera froðu þó maður noti ekki kartöflumjöl. Það er bara sett með til að froðan verði stífari og haldi sér betur. Froða án kartöflumjöls er líka alveg dásamlega skemmtileg!

Það er hægt að nota hvaða sápu sem freyðir vel. Ég nota oftast froðubað sem er ætlað börnum því mér finnst það fara betur með húðina heldur en til dæmis uppþvottalögur. Börnin mín eru allavega alltaf með hendurnar alveg á kafi í sápunni og stundum eru þau jafnvel líka komin með fallegan froðuhatt á hausinn. Aldeilis góð leið til að tryggja að maður komist í bað líka 😉

Mér finnst best að setja froðuleikinn upp í Flisat borðinu okkar frá IKEA. Það er mismunandi hvernig ég set leikinn upp. Stundum hef ég einn bakka fyrir froðu og einn fyrir vatn. Stundum hef ég tvo litla bakka fyrir froðu og tvo litla bakka fyrir vatn. Það er auðvitað hægt að finna enn fleiri útfærslur til að bjóða uppá froðuleik. Svo er líka skemmtilegt að hafa einhver leikföng með í froðuleikinn. Það getur verið hvað sem er sem þolir vatn. Til dæmis kubbar, plastdýr, baðdót og fleira sem þér dettur í hug.

Froðuleikur er líka mjög skemmtileg afþreying utandyra á góðviðrisdögum. Þar er kjörið að búa til allskyns súpur og seyði með froðu, vatni, blómum, grasi, laufblöðum og hverju sem börnunum dettur í hug að nota.

Ég get eiginlega ekki mælt meira með þessari afþreyingu. Ég nýt þess svo mikið að fylgjast með krökkunum mínum leika sér með froðuna og svo lyktar allt baðherbergið svo dásamlega á meðan!

 

Fyrir frekari upplýsingar um skynjunarleiki, svosem hvað það nú eiginlega er, gagnsemi þeirra, góð ráð til að setja upp og ganga frá skynjunarleikjum, bendi ég á rafbókina um skynjunarleiki. Þar fer ég yfir allt sem þú þarft að vita til að setja upp skynjunarleiki fyrir börnin þín á einfaldan og öruggan hátt. Ýttu hér til að kaupa rafbókina