Að velja leikföng

Oct 20, 2021

Ein jólin fékk drengurinn minn leikfang í jólagjöf sem hafði fjölmarga takka sem bjuggu til hin ýmsu hljóð og ljós. Leikfangið var sjúklega spennandi og barnið ýtti á takkana og það vantaði ekki ljósin og hljóðin. Ótrúlega skemmtilegt! Síðan ýtti hann aftur á takkana og nákvæmlega það sama gerðist. Hann fylgdist með ljósunum og hljóðunum og prófaði svo aftur að ýta á takkana sem aftur hafði sömu afleiðingar.

Eftir örfáar mínútur var drengurinn búinn að átta sig á að það gerðist ekkert nýtt. Það komu bara sömu ljósin og sömu hljóðin þegar ýtt var á takkana. Hann fann sér fljótt eitthvað annað að gera. Þetta leikfang var samtals notað í innan við klukkustund allan tímann sem það var til á heimilinu.

Næstu jól fengu börnin segulkubba að gjöf sem þau fengu að opna um miðjan dag. Þau léku lengi með segulkubbana þann daginn. Nú nokkrum árum seinna eru þeir enn jafn vinsælir og hafa leitt af sér mörg hundruð klukkustunda leik.

 

 

Leikföng hafa áhrif á það hvernig börn leika sér og leikur hefur mikil áhrif á þroska þeirra. Það er því mikilvægt að vanda valið þegar velja skal leikföng fyrir börn. Við þurfum að velta fyrir okkur hvaða áhrif við viljum að leikföng hafi á börnin okkar og þeirra þroska? Viljum við efla sjálfstæði, skapandi hugsun, seiglu, lausnamiðaða hugsun og fleira í þeim dúr? Þá þurfum við að velja leikföng sem gera ekkert nema barnið geri það. Því einfaldara því betra. Markmiðið er að barnið skapi leikinn. Barnið er stjórnandinn og leikföngin eru fylgihlutirnir. Það eru ekki leikföngin sem eiga að vera í aðalhlutverki og skapa leikinn með barnið í hlutverki áhorfanda.

 

 

Opin leikföng (e. open-ended toys) eru leikföng sem hafa hafa engin fyrirfram ákveðin hlutverk. Það er hægt að leika með slík leikföng á ótal vegu og börn þurfa að nota hugmyndaflugið til að skapa leikinn. Það sem er gott við opin leikföng er að þau endast almennt lengur en hefðbundin leikföng þar sem börn finna nýjar leiðir til að nota þau eftir því sem börnin eldast og þroskast. Það er því minni þörf fyrir að kaupa ný leikföng fyrir hvert þroskastig barna.

 

 

Leikföng sem eru ekki „opin leikföng“ eru líka góð fyrir allskonar þroskandi leiki. Það eru til dæmis bílar, dúkkur, dýr og fleiri slík leikföng. En þegar velja skal þannig leikföng er gott að hafa einfaldleikann alltaf í fyrirrúmi. Velja bíla sem hafa frekar hlutlaust útlit þannig að þá má nota ýmist sem fjölskyldubíl, löggubíl, leigubíl eða jafnvel Hvolpasveitarbíl.

 

 

Síðustu ár hefur úrval af góðum leikföngum aukist verulega á Íslandi. Með svo mikið úrval getur verið yfirþyrmandi að finna út hvers konar leikföng séu best til að byrja með. Þú getur skoðað hvað einkennir leik barna á ákveðnum aldri og hvaða leikföng geta verið hentug fyrir þann aldur með því að ýta hér.

 

Þar til næst - Sigrún Yrja